Fyrri fundurinn (25. október) var ætlaður notendum hæðarmæla í iðnaði en sá seinni (22. nóvember) var sérstaklega fyrir notendur færanlegra mælitækja (frá Troxler fyrirtækinu) og voru flutningsmál sérstaklega til umræðu, enda höfðu ýmsir notendur átt í vanda við að uppfylla þær ströngu kröfur sem gerðar eru varðandi flutning geislavirkra efna. Útbúin voru drög að fræðsluefni í samvinnu við Vinnueftirlit ríkisins sem sett hafa verið á vefsíðu Geislavarna ríkisins. Vegna þess hversu mörg slík tæki eru í umferð (um 20) og vegna þess að nauðsynlegt er að flytja þau á milli staða er mikil þörf fyrir leiðbeiningar um flutning þeirra.

Á fundinum um hæðarmæla voru förgunarmál meðal annars til umræðu. Á Íslandi eru margar geislalindir í geymslu sem ekki er líklegt að verði aftur teknar í notkun. Þessar lindir þarf að senda úr landi til förgunar og er komin aukin hreyfing á þau mál.

Á myndinni eru þátttakendur í fræðslu- og samráðsfundi um færanleg mælitæki 22. nóvember.