Hvað er 5G?
5G er fimmta og nýjasta kynslóð (e. generation – 5G) þráðlausra farsímaneta og kemur í framhaldi af 4G farsímanetinu. 5G býður m.a. upp á hraðara streymi gagna og minni tafir á gagnaflutningi. Hagnýting 5G tækninnar hefur í för með sér fjöldann allan af nýjum notkunarmöguleikum.

5G á Íslandi
Innleiðing á 5G er hafin á Íslandi og hefur Póst- og fjarskiptastofnun birt niðurstöðu samráðs um úthlutun á 5G tíðniheimildum á vef sínum. Geislavarnir ríkisins og Póst- og fjarskiptastofnun hafa komið á samstarfsverkefni samhliða innleiðingu á 5G. Verkefnið felur í sér að fylgjast með þróun 5G tækni á Íslandi sem og margþættar mælingar.

Núverandi kynslóðir farnetssenda á Íslandi (GSM, 3G og 4G) nota tíðnir á bilinu 700 MHz – 2,6 GHz. Fyrsta úthlutun á 5G tíðniheimildum á Íslandi er á tíðnibilinu 3,4 – 3,8 GHz en úthlutun á 24,25 – 27,5 GHz kann að eiga sér stað síðar. Hærri tíðni er skammdrægari og því þarf fleiri farnetsenda við innleiðingu 5G ef hærra tíðnisvið verður tekin í notkun.

Alþjóðlegt samstarf
Geislavarnir fylgjast vel með þróun 5G mála erlendis m.a. með virkri þátttöku í samstarfi norrænna geislavarnastofnana og alþjóðlegu samstarfi innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem m.a. er fjallað um 5G og þá sérstaklega hugsanleg áhrif á fólk og umhverfi.

Viðmiðunarmörk
Viðmiðunarmörk eru sett af Alþjóða geislavarnaráðinu fyrir ójónandi geislun (International Commission on Non‐Ionizing Radiation Protection (ICNIRP)). ICNIRP eru óháð, alþjóðleg samtök sem eru viðurkennd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Meðlimir ICNIRP eru í hópi fremstu sérfræðinga á sínu sviði og til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra eru meðlimir ekki úr tengdum iðnaði. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin styðst við viðmiðunarmörk ICNIRP og hafa þau m.a. verið tekin upp hér á Íslandi sem og annars staðar á Norðurlöndunum.

Nýjar Viðmiðunarreglur ICNIRP innihalda viðmiðunarmörk fyrir styrk rafsegulsviðs á tíðnibilinu 100 kHz – 300 GHz (þ.m.t. 5G) fyrir bæði almenning og starfsfólk. Viðmiðunarreglurnar tiltaka viðmiðunarmörk fyrir 5G, bæði á tíðni sem nú er notuð og einnig fyrir hærri tíðni sem líklega verður notuð á komandi árum en einnig t.d tíðnisvið þráðlausra neta (e. WiFi), blátönn (e. bluetooth) og núverandi notkun á 3G og 4G fjarskiptanetum. Viðmiðunarmörkin eru gefin út á grundvelli heildstæðs mats á niðurstöðum fyrirliggjandi vísindarannsókna á hugsanlegum skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs. Tekið hefur verið tillit til allra skaðlegra áhrifa sem ICNIRP metur að færðar hafi verið sönnur á. Að mati ICNIRP hefur ekki verið sýnt fram á að fyrir hendi séu skaðleg áhrif rafsegulsviða þegar styrkur þeirra er undir viðmiðunarmörkunum.

Viðmiðunarmörkin sem sett eru fyrir starfsmenn (t.d. starfsmenn fjarskiptafyrirtækja sem vinna við uppsetningu og viðhald fjarskiptasenda) og almenning eru lægri en sá styrkur sem veldur þekktum og skaðlegum líffræðilegum áhrifum. Lækkunarstuðull (e. reduction factor) er notaður þannig að þótt styrkurinn sé við viðmiðunarmörk þá veldur hann ekki skaða. Viðmiðunarmörk starfsmanna eru 2-5 sinnum lægri en þarf til að valda skaða og fyrir almenning eru viðmiðunarmörkin 10-50 sinnum lægri en styrkurinn sem veldur skaða.

Líffræðileg áhrif rafsegulsviðs
Líffræðileg áhrif rafsegulsviðs, þ.m.t. vegna 5G fjarskipta, og víxlverkun þess við mannslíkamann er háð tíðni og því eru viðmiðunarmörk ICNIRP breytileg eftir þeirri tíðni sem um er að ræða. Samkvæmt Viðmiðunarreglum ICNIRP frá 2020 eru einu staðfestu skaðlegu líffræðilegu áhrif rafsegulsviðs á tíðnibilinu 100 kHz – 300 GHz taugaörvun (vegna tíðni allt að 10 MHz) og hitunaráhrif í líkamanum (vegna tíðni allt frá um 100 kHz). Aukning á líkamshita um meira en 1°C fyrir allan líkamann eða 2-5°C fyrir hluta líkamans getur haft skaðleg áhrif. Viðmiðunarmörk ICNIRP miða við að koma í veg fyrir staðfest skaðleg áhrif.. Að mati ICNIRP hefur ekki verið sýnt fram á skaðleg áhrif rafsegulsviða þegar styrkur þeirra er undir viðmiðunarmörkunum.

Rannsóknastofnunin IARC (International Agency for Research on Cancer), sem starfar í nánum tengslum við WHO, metur hvort og hvernig eigi að flokka ýmsa þætti í umhverfi mannsins með tilliti til krabbameinshættu. Árið 2011 komust sérfræðingar IARC að þeirri niðurstöðu að rétt væri að flokka rafsegulsvið af útvarpstíðni (e. radiofrequency electromagnetic fields) sem hugsanlegan krabbameinsvald (flokkur 2B). Í Viðmiðunarreglum ICNIRP frá 2020 fyrir rafsegulsvið af útvarpstíðni (100 kHz – 300 GHz) kemur fram að ekki hafi verið sýnt fram á að rafsegulsvið á þessu tíðnibili valdi krabbameini í fólki. IARC hefur heldur ekki breytt flokkuninni frá 2011.

Vísindanefnd Evrópusambandsins um nýgreinda og vaxandi heilbrigðisáhættu (Scientifc Committee on Emerging and Newly Identified Health Risks, SCENIHR) segir m.a. í skýrslu frá 2015 að ítarleg athugun á öllum nýlegum gögnum sem málið varða hafi ekki leitt í ljós sannfærandi rök fyrir því að rafsegulsvið séu hættuleg heilsu manna.

Í Spurt og Svarað um 5G og heilsu á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir m.a. að fram til þessa hefur ekki verið sýnt fram á að rafsegulsvið vegna þráðlausrar tækni valdi skaða á heilsu manna en stofnunin hvetur til frekari rannsókna á mögulegum langtímaáhrifum allra tegunda farsímafjarskipta. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stendur fyrir umfangsmiklu rannsóknarverkefni um mat á heilsufarsáhættu vegna rafsegulsviða, þar með talið vegna 5G, sem áætlað er að ljúki árið 2022.

Hlekkir á tengt efni:

 

Síðast uppfært 17. september 2020