Við röntgenmyndgerð eru það oftast geislafræðingar sem stjórna röntgenbúnaðinum. Þeir velja rétt svæði á líkamanum og stöðu hans fyrir hverja rannsókn, en um leið gæta þeir þess að geislaskammtur sjúklings við myndatökuna verði eins lítill og frekast er unnt. Sérstaklega er mikilvægt að takmarka stærð þess svæðis sem geislað er á eins og mögulegt er, t.d. með því að nota viðeigandi geislahlífar eða blýsvuntur. Röntgenlæknar framkvæma sumar sérrannsóknir (æðarannsóknir og skyggnirannsóknir) og þá oftast í samstarfi við geislafræðinga. Röntgenlæknar eru menntaðir til þess að túlka myndgreiningarannsóknir og aðstoða aðra lækna við sjúkdómsgreiningu.

Þó koma einnig aðrir sérgreina læknar einnig að notkun röntgentækja, svo sem hjartalæknar vegna rannsókna og inngripsaðgerða tengdum hjarta. Sama má segja um ýmsa skurðlækna, bæklunarlækna og lyflækna sem nota röntgentæki mikið við sína starfsemi.

Röntgenmyndir af útlimum, svo sem framhandlegg eða fótlegg, og af lungum og tönnum eru algengastar þeirra röntgenrannsókna sem fram fara hérlendis. Við þessar rannsóknir þarf hlutfallslega mjög litla geislun. Með aukinni notkun tölvusneiðmyndatækja fara slíkar rannsóknir vaxandi.

Ávallt verður að vera læknisfræðileg ástæða fyrir röntgenrannsóknum og þær skal framkvæma á viðurkenndan hátt, þannig að geislun verði eins lítil og unnt er. Þá er hætta sem fylgir geisluninni réttlætanleg og tryggt er að ávinningur sjúklings er meiri en áhættan.

Geislaskammtar og geislaálag sjúklinga geta verið mjög breytileg við samskonar röntgenrannsóknir, bæði innbyrðis á milli sjúklinga og á milli einstakra röntgendeilda. Markmiðið er þó alls staðar það sama: að halda geislaskömmtum eins lágum og frekast er unnt. Mikil áhersla er lögð á að ná bestu mögulegum myndgæðum með eins lágum geislaskömmtum og unnt er. Gæðaeftirlit og gæðatrygging er mikilvægur þáttur í starfsemi allra myndgreiningardeilda.

Áður en röntgenrannsókn hefst er mjög mikilvægt að konur á barneignaraldri láti lækni eða annað starfsfólk myndgreiningadeildarinnar vita ef þær eru eða kunna að vera barnshafandi.

Sjá einnig fræðsluefni fyrir barnshafandi konur