Norrænu heilbrigðis- og geislavarnastofnanirnar telja að við norrænar aðstæður sé ekki ráðlegt að leyfa notkun ljósabekkja sem eru sterkari en sól við miðbaug. Þær telja enn fremur að samsetning útfjólublás ljóss í sólarlömpum eigi ekki að víkja of mikið frá samsetningu útfjólublás sólarljóss þar sem ekki sé vitað hvernig samsetningin tengist myndun sortuæxla sem er alvarlegasta tegund húðkrabbameins. Áfram skuli flokka ljósabekki með tilliti til styrks geislunar og samsetningar.

Forsaga málsins er sú að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók til athugunar heilsuáhættu við notkun ljósabekkja, meðal annars vegna þess að mörg lönd í Evrópu hafa innleitt takmarkanir á notkun þeirra sem eru að nokkru leyti mismunandi. Einnig hafa heilbrigðisyfirvöld og ljósabekkjaiðnaðurinn ekki verið sammála um áhættuna við notkun bekkjanna og um hversu sterk geislun í ljósabekkjum megi vera. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur beðið eina af vísindanefndum sínum um svör við spurningum um þetta og boðið þeim sem málið varðar að koma með athugasemdir við uppkast að áliti vísindanefndarinnar.

Norrænu stofnanirnar eru sammála vísindanefndinni um að notkun ljósabekkja auki líklega hættuna á illkynja sortuæxlum.

Norrænu geislavarnayfirvöldin í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð hafa sett fram sameiginlegt álit um ljósabekki og ráðið almennt frá því að ljósabekkir séu notaðir til að gefa brúnan lit. Þau eru sammála vísindanefnd Evrópusambandsins um að ungt fólk undir 18 ára aldri og fólk sem er viðkvæmt fyrir sól (húðgerð I og II) eigi ekki að nota ljósabekki.

Fyrri frétt um sérfræðinefnd ES

Tengt efni:

Álit norrænna geislavarnastofnana (pdf)

Tæknilegar athugasemdir (pdf)

Norrænar leiðbeiningar um ljósabekki (pdf)