Vinnuhópur HERCA (Samtök evrópskra geislavarnastofnana) um læknisfræðilega notkun jónandi geislunar hélt nýlega fund í Haag í Hollandi. Þar voru saman komnir 23 fulltrúar frá 16 löndum í Evrópu, bæði Evrópu­sambands­­löndum og EES-löndum (Íslandi, Sviss og Noregi), ásamt gestum frá Alþjóða­kjarnorkumálastofnuninni (http://rpop.iaea.org/) og Evrópusambandinu (Radiation Protection).

Vinnuhópurinn fundar tvisvar á ári og fjallar um ýmis sameiginleg verkefni. Þá eru einnig kynnt hlutverk og starfsemi einstakra stofnana og sagt frá reynslu af tilteknum verkefnum. Vinnuhópnum er ætlað að auka samstarf á þessu sviði geislavarna og bæta samræmingu á framkvæmd evrópskar löggjafar um geislavarnir.

Meðal helstu viðfangsefna fundarins var eftirfarandi:

  • Samstarf við samtök framleiðenda lækningatækja sem notuð eru við læknisfræðilega myndgreiningu (COCIR).  Á síðasta ári var gert samkomulag við COCIR um mörg verkefni sem tengjast tölvusneiðmyndatækjum (sjá HERCA frétt 9. janúar 2012), þar á meðal verkefni sem eiga að draga úr geislaálagi sjúklinga vegna tölvusneiðmyndarannsókna og auka möguleika notenda á að hafa áhrif á geislaálag og myndgæði rannsókna á aðgengilegri hátt en nú er. Á fundinum kom fram að samstarfið nær nú einnig til Bandaríkjanna.
  • Réttlæting fyrir framkvæmd röntgenrannsókna. Í samstarfi við Evrópusamtök Röntgenlækna og Geislafræðinga er unnið að samræmdum leiðbeiningum sem ætlað er að fækka ónauðsynlegum röntgenrannsóknum (sjá frétt 16.01.2012). Verkefninu miðar vel.
  • Samræming á menntun og þjálfun þeirra sem framkvæma eftirlit vegna geislavarna í læknisfræði. Þeirri vinnu miðar vel og er þess vænst að hún leiði til bætts eftirlits í aðildarlöndum HERCA.
  • Samræmd aðferðarfræði við söfnun upplýsinga við mat á geislaálagi og hópgeislaálagi vegna myndgreiningarrannsókna. Áhugavert verkefni sem er að ljúka  og verða niðurstöður þess birtar á vefsetri verkefnisstjórnar (http://ddmed.eu/news) fljótlega.
  • Ný grunntilskipun Evrópusambandsins um geislavarnir. Vinnu við hana er að ljúka og gert er ráð fyrir að hún verði birt síðar á árinu. Samræming á innleiðingu hennar verður eitt helsta verkefni vinnuhópsins á næstu árum.
  • Niðurstöður réttarhalda í Frakklandi vegna atvika sem upp komu fyrir nokkrum árum. Um var að ræða mistök við framkvæmd geislameðferðar sem leiddi til alvarlegra áverka og dauða sjúklinga. Læknar og eðlisfræðingar sem ábyrgir voru fyrir mistökunun voru dregnir til ábyrgðar og hlutu refsidóma. Sjá umfjöllun á AuntMinnieEurope.

Næsti fundur vinnuhópsins verður í september í Stokkhólmi.

Frekari upplýsingar veitir undirritaður

Guðlaugur Einarsson (ge@gr.is)