Á vegum Evrópusambandsins hafa að undanförnu farið fram umfangsmiklar rannsóknir á geislaálagi flugáhafna. Framkvæmdur hefur verið mikill fjöldi mælinga á geislaálagi á ýmsum flugleiðum bæði innan Evrópu og milli heimsálfa. Markmið rannsóknanna var fyrst og fremst að afla mæligilda sem hægt væri að nota í þeim tilgangi að bera saman og bæta reiknilíkön sem notuð eru til þess að meta geislaálag flugáhafna. Geislavarnir komu að þessu verkefni í samvinnu við Sænsku Geislavarnirnar og veittu Flugleiðir góðfúslega leyfi til þess að mælingar væru framkvæmdar á flugleiðinni Stokkhólmur – Keflavík – USA – Keflavík – Stokkhólmur.

Geislaálag á flugáhafnir hefur nokkuð verið til umræðu á undanförnum árum. Mælingar sem gerðar hafa verið staðfesta að geislun flugáhafna getur verið meiri en ýmissa starfsstétta sem starfa við jónandi geislun á jörðu niðri. Þar má t.d. nefna starfsfólk á röntgendeildum sjúkrastofnana. Vegna þessa hafa verið sett sérstök ákvæði m.a. í tilskipanir ESB um geislavarnir sem og íslenska löggjöf um geislavarnir er varða geislun flugáhafna og eftirlit með henni.