Alþjóða geislavarnaráðið (International Commission on Radiological Protection, ICRP) var stofnað árið 1928. Ráðið, sem nýtur mikillar virðingar, gefur út leiðbeiningar um geislavarnir og mynda þær, ásamt niðurstöðum nefndar Sameinuðu þjóðanna um áhrif geislunar, grunn alþjóðlegra öryggisstaðla í geislavörnum. Ráðið hefur ekki gengist fyrir alþjóðlegri ráðstefnu áður en á þessari ráðstefnu kom fram að geislavarnir eru í stöðugri þróun, m.a. eru nú til athugunar fleiri áhættuþættir vegna geislunar en krabbamein, þar á meðal aukning í tíðni hjartasjúkdóma.

Innan ICRP starfar yfirnefnd (stjórn ) og fimm fagnefndir sem fjalla um líffræðileg áhrif (1. nefnd), geislun og geislaskammta ( 2. nefnd ), geislavarnir sjúklinga ( 3. nefnd ), útfærslu á leiðbeiningum ráðsins ( 4. nefnd ) og geislun dýra og planta ( 5. nefnd ). Alls taka rúmlega 200 sérfræðingar frá um 30 löndum þátt í starfsemi ICRP. Hver nefnd fundar árlega og yfirnefndin fundar á 6 mánaða fresti. Sameiginlegir fundir eru haldnir annað hvert ár og var 2011 fundurinn haldinn í Washington í lok október. Samhliða honum var haldin fjölmenn ráðstefna þar sem fjallað var um helstu viðfangsefni og starfsemi ráðsins. Var það í fyrsta sinn sem slík ráðstefna var haldin.

Að sögn Sigurðar M Magnússonar, forstjóra Geislavarna , en hann á sæti í 4. nefnd ICRP, tókst ráðstefnan mjög vel en hana sóttu um 500 manns sem eru mun fleiri en ráð hafði verið gert fyrir. Auk helstu verkefni geislavarnaráðsins og stöðu þeirra var stefna ráðsins og áherslur 2011 – 2017 kynnt á ráðstefnunni. Meðal þess sem áhersla verður lögð á er, auk lærdóms af kjarnorkuslysinu í Fukushima, aukið geislaálag sjúklinga vegna tækniþróunar í læknisfræði og önnur líffræðileg áhrif geislunar en krabbamein.

Vegna þess hve ráðstefnan tókst vel hefur þegar verið ákveðið að aftur verði haldin ráðstefna þegar nefndir ICRP funda saman árið 2013.

Upplýsingar um starfsemi Alþjóða geislavarnaráðsin og fyrirlestra á ráðstefnunni í Washington má finna á heimasíðu ICRP, www.icrp.org.

SMM

22.11.2011