Um þessar mundir er styrkur útfjólublárrar geislunar frá sólu í hámarki á Íslandi. Svokallaður UV-stuðull segir til um styrk hennar. Daglega eru birtar tölur um áætlaðan styrk útfjólublárrar geislunar á Íslandi á vef Geislavarna á slóðinni uv.gr.is.

UV-stuðullinn er ekki aðeins breytilegur eftir árstíma heldur einnig yfir daginn og nær hann hámarki þegar sól er hæst á lofti, í kringum hálf tvö á daginn.

Hér að neðan má líta spá finnsku veðurstofunnar fyrir Reykjavík í dag, 13. júlí 2020.

Ástæða er til að nota sólarvörn þegar UV-stuðull er 3 eða hærri og á það því við drjúgan hluta dagsins. Spáin gildir fyrir heiðskírar aðstæður en þykka skýjahulu þarf til að deyfa UV geislun að ráði. Sé stuðullinn 2 eða hærri getur verið full þörf á sólarvörn ef verið er lengi úti í sólinni eða ef húð er viðkvæm

Við minnum fólk á að verja sig gegn geislun sólar, t.d. með flíkum, sitja í skugga, nota sólarvörn og takmarka þann tíma sem fólk er óvarið í sól. Minna má sérstaklega á börnin í þessu sambandi.