Fjórir síritandi geislamælar voru settir upp á árunum 2004-2005 við sjálfvirkar veðurstöðvar Veðurstofu Íslands og hafa gögn frá þeim verið aðgengileg æ síðan. Gögnum frá þessum mælum er miðlað jafnóðum til samstarfsaðila og almennings og eru þau aðgengileg m.a. á vefjum Geislavarna ríkisins og Veðurstofu Íslands, en auk þess á gagnvirku korti EURDEP kerfisins.

EURDEP kerfið (European Radiological Data Exchange Platform) veitir aðgang að gögnum frá gammamælistöðvum víðsvegar um Evrópu og raunar víðar, og eru þau nú sett fram á einfaldan og myndrænan hátt á korti. Kortið er gagnvirkt þannig að með aðdrætti má auka upplausn. Ef smellt er á mælistöð birtast nánari gögn fyrir þann stað. Einnig má smella á tiltekið land af lista og fá þannig nánara yfirlit yfir mælikerfi hvers lands.

Gögnin í kerfinu hafa sameiginlegt snið og eru því samanburðarhæf milli svæða.

Það er Veðurstofa Íslands sem annast miðlun gagnanna frá Íslandi til EURDEP kerfisins. Aðgengilega framsetningu gagnanna er að finna á vef Veðurstofu og á vef Geislavarna, þar sem einnig er bein tenging í EURDEP kortið.

Þróun og viðhald EURDEP kerfisins er í umsjá Sameiginlegrar rannsóknamiðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (Joint Research Centre of the European Commission, JRC).

Upplýsingar úr kerfinu hafa verið aðgengilegar árum saman, en þar til nýlega var myndræn framsetning þeirra flókin, gagnvirkt kort þungt í vöfum og óþjált í notkun. Gerð hefur verið bót á þessu og nú er kort sem sýnir heildarstyrk gammageislunar víðsvegar um álfuna aðgengilegt öllum á þægilegan hátt.

Vöktun á styrk geislunar er hluti viðbúnaðar gegn geislavá á Íslandi. Niðurstöður mælinganna sýna bakgrunnsgeislun, sem er jafnan lág en er breytileg bæði eftir stað og tíma, t.d. getur úrkoma skolað geislavirkum efnum úr lofthjúpi til jarðar. Einnig getur gerð berggrunns á hverjum stað haft áhrif sem og aðrir staðhættir. Styrkur geislunar er lágur, eða 40-70 nSv/klst. Eins og að framan greinir geta ýmsir þættir skapað þennan breytileika, t.d. úrkoma, og eru veðurgögn aðgengileg samhliða geislunargögnum á vef Veðurstofu og á vef Geislavarna, og oft má sjá hækkun á styrk geislunar samfara úrkomu.