Við ákveðnar aðstæður er ástæða til að mæla geislaálag á fingur geislastarfsmanna.  Þetta á til dæmis við um þá sem vinna með opnar geislalindir.

Í reglugerð 1290/2015 er kveðið á um leyfilegt hámark árlegs hlutgeislaálags á húð geislastarfsmanns og er það 500 mSv.  Mælingar á geislaálagi á fingur eru gerðar til þess að sýna fram á að geislun sé ekki umfram þessi mörk.

Geislavarnir ríkisins (GR) hafa umsjón með mælingum á geislaálagi geislastarfsmanna á Íslandi og geislaálag á fingur er mælt með TLD-hringjum frá Landauer í Bretlandi.

Starfsmenn bera hring á vísifingri ríkjandi handar með geislanemann (merkið á hringnum) lófamegin.  Mælt er í einn mánuð í senn, hringar eru sendir í aflestur og notendur fá upplýsingar um mæliniðurstöður u.þ.b. mánuði eftir að mælitímabili lýkur.

Við túlkun á niðurstöðum er nauðsynlegt að hafa í huga að geislaálag á fingurgóma er alltaf meira en geislaálagið sem hringurinn mælir vegna þess að við vinnu með opnar geislalindir eru fingurgómar nær uppsprettu geislunarinnar.

Niðurstöður sem GR senda notendum TLD-hringja sýna geislaálag á þeim stað sem mælir er.

Geislaálag á fingurgóma er hægt að áætla með því að margfalda geislaálag mælt með TLD-hring með stuðli af stærðinni 3 – 6, en aðstæður, verklag og þjálfun hafa mikil áhrif á hve miklu meira geislaálag er á fingurgóma en það sem TLD-hringur mælir.  Í Töflu 1, sem er unnin upp úr gögnum frá Martin (2016), má sjá hvaða stuðlar eru ráðlagðir (1).

Tafla 1.  Stuðlar til þess að áætla mesta geislaálag á fingurgóma út frá geislaálagi sem mælist með TLD-hring (sem borinn er samkvæmt leiðbeiningum Geislavarna ríkisins).  Geislaálag á hring er margfaldað með þeim stuðli sem best samræmist aðstæðum á hverjum stað.  Gögn frá (1).

Geislahlífar notaðar fyrir hettuglös og sprautur Fingurgómur snertir hettuglas eða sprautu Þjálfun starfsmanns Stuðull
Ekki alltaf Annað slagið Einhver 6
Oftast Svo til aldrei Mikil 4
Undantekningarlaust Aldrei Mjög mikil 3

 

Almennt fylgir meira geislaálag vinnu með 18F en vinnu með 99mTc og meira geislaálag þeim hluta meðhöndlunar efnis sem fer fram áður en komið er að inngjöf til sjúklings (2).  Í stóru verkefni um geislaálag á fingur, ORAMED, reyndist miðgildi staðlaðs geislaálags á fingur við inngjöf 18F vera 0,64 mSv/GBq en 0,83 mSv/GBq vegna meðhöndlunar efnis fyrir inngjöf (2).  Samkvæmt nýlegri rannsókn er gæðaeftirlit sá verkþáttur í vinnu við 18F sem veldur mestu geislaálagi á fingur og mældist það allt að 0,35 mSv/GBq (3).  Tölurnar benda til þess að geislaálag á fingur geti hæglega farið yfir hámark leyfilegs geislaálags sé varúðar ekki gætt.

Mikill munur (allt að 40-faldur) er á geislaálagi á milli staða (2) sem undirstrikar hve mikilvægt er að huga að þjálfun starfsfólks, skipulagi vinnu og vinnuaðstæðum.

Notkun geislahlífa utan um hettuglös og sprautur er algjör nauðsyn til þess að minnka geislaálag á fingur en viðunandi geislaálag er þó ekki tryggt nema með réttu verklagi (4).  Betra er að nota hjálpartæki sem auka fjarlægð á milli húðar og geislalindar heldur en að reyna að vinna hratt.  Þjálfa á vinnubrögð með ógeislavirkum lindum og gott vinnuskipulag og markviss þjálfun vega þyngra en löng starfsreynsla.

 

  1. Martin CJ. Strategies for assessment of doses to the tips of the fingers in nuclear medicine. Journal of Radiological Protection. 2016;36(3):405.
  2. Carnicer A, Sans-Merce M, Baechler S, et al. Hand exposure in diagnostic nuclear medicine with 18F- and 99mTc-labelled radiopharmaceuticals – Results of the ORAMED project. Radiat Meas. 2011;46(11):1277-82.
  3. Małgorzata W, Łukasz A. Hand exposure of workers in 18 F-FDG production centre. Journal of Radiological Protection. 2016;36(4):N67.
  4. Salesses F, Perez P, Maillard AE, et al. Effect of dosimeter’s position on occupational radiation extremity dose measurement for nuclear medicine workers during 18F-FDG preparation for PET/CT. EJNMMI Physics. 2016;3(1):16.