Flugvélaskrokkur veitir ekki mikla vernd gegn geimgeislun, sérstaklega gammageislun og verða því flugáhafnir ásamt farþegum fyrir meiri geislun á flugi en þeir sem eru á jörðinni. Í reglugerð 1290/2015 um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfsemi þar sem notuð er jónandi geislun eru nánari ákvæði um þau hámörk geislunar sem starfsmenn sem vinna við jónandi geislun mega verða fyrir. Fylgst skal með geislaálagi starfsmanna sem geta orðið fyrir meiri geislun en svarar til 1 mSv á ári, þar á meðal vegna aukinnar náttúrulegrar geislunar sem fylgir starfi. Flugáhafnir í millilandaflugi falla í þann flokk starfsmanna sem fylgjast þarf með.

Íslensk lagaákvæði taka mið af lagaumhverfi Evrópusamandsins. Norrænar geislavarnastofnanir hafa í samvinnu við flugmálayfirvöld á Norðurlöndum sameinast um norræna túlkun á evrópskum og alþjóðlegum ákvæðum um eftirlit með geislaálagi flugáhafna.

Geislaálag mælir líffræðileg áhrif geislunar á fólk og er mæld í einingu sem kölluð er sívert (e. Sievert), skammstafað Sv. Þegar geislunarstyrkur er gefin upp í sívertum á tímaeiningu, t.d. µSv/klst er búið að leggja saman og umreikna áhrif mismunandi tegunda geislunar þannig að ekki skiptir máli hvort geislunin hafi t.d. verið gamma-geislun eða nifteindageislun. Geislaálag flugáhafnar ræðst af nokkrum þáttum. Flugtími, flughæð, flugleið og virkni sólar (sólgos) eru þeir þættir sem hafa hvað mest að segja um það geislaálag sem hver flugáhafnarmeðlimur verður fyrir. Út frá þessum þáttum er hægt að áætla geislaálag með nokkurri vissu.

Geislavarnir ríkisins og Flugmálastjórn vinna saman að útfærslu eftirlits með geislaálagi flugáhafna í millilandaflugi. Flugrekendur eiga að skipuleggja vinnu flugliða og flugleiðir með það að markmiði að geislaálag starfsmanna haldist undir 6 mSv á ári og fari ekki yfir 1 mSv hjá konum eftir að þær tilkynna að þær séu barnshafandi. Upplýsingum um geislaálag flugáhafna í millilandaflugi skal safnað og þær sendar Geislavörnum ríkisins árlega. Flugliðar í millilandaflugi eiga einnig að fá upplýsingar um eigið geislaálag árlega.

Sjá einnig: