Skýrt hefur verið frá því að geislavirk efni hafi lekið úr vinnslurásinni við THORP endurvinnslustöðina í Sellafield. Leki kom upp í röri á milli tanka og láku um 70 rúmmetrar af hágeislavirkum vökva sem bæði inniheldur úran og plúton úr rörinu. Geislavirku efnin voru úr notuðu brennsluefni sem hafði verið leyst upp í saltpéturssýru en það er eitt skrefið í endurvinnslu notaðs brennsluefnis kjarnorkuvera. Öryggisbúnaður endurvinnslustöðvarinnar gerir ráð fyrir að svona lekar geti átt sér stað og því runnu efnin í sérstaka safntanka en fóru ekki út í umhverfið.

Samkvæmt upplýsingum breskra stjórnvalda hafa engin geislavirk efni borist út í umhverfið vegna lekans. Lekinn hefur heldur ekki valdið aukinni geislun á starfsfólk endurvinnslustöðvarinnar.

THORP endurvinnslustöðin verður væntanlega lokuð næstu mánuði því áður en hægt verður að hefja starfsemina að nýju þarf að gera við rörið sem lekur og flytja geislavirku efnin úr safntönkunum í vinnslurásina. Geislunin við rörið og í safntankinum er svo mikil að fjarstýrð vélmenni verða notuð við hreinsun og viðgerðir.

THORP endurvinnslustöðin hefur gert samninga um endurvinnslu til ársins 2018 en eftir það verður tekin ákvörðun um framhald starfseminnar.