Geislun sem fólk verður fyrir í röntgentækjum tannlækna er mjög lítil í samanburði við geislun röntgentækja á sjúkrahúsum. Jafnvel þótt tekið sé tillit til þess hversu algengar röntgenmyndatökur af tönnum eru, verður áætluð geislun þjóðarinnar vegna notkunar röntgentækja hjá tannlæknum aðeins um 1% af heildargeislaálagi vegna röntgentækja (sbr. skýrslu frá árinu 1994.) Við reglubundið eftirlit Geislavarna ríkisins með tannröntgentækjum hefur komið í ljós að geislaskammtar hjá tannlæknum hafa á undanförnum árum minnkað enn frekar. Þetta er vegna þess að nær allir tannlæknar nota nú næmari filmur en árið 1994 og vegna þess að nokkur hluti þeirra notar nú stafræna myndnema sem þurfa enn minni geislun en filmurnar.

Í nýrri reglugerð um geislavarnir vegna notkunar tannröntgentækja frá árinu 2003 er ákvæði um að tannlæknar noti almennt næmari filmur, svokallaðar E filmur (E eða F filmur) í stað D filma. Fram til ársins 2002 notuðu nær allir íslenskir tannlæknar D filmur en nú heyrir það til undantekninga. Með E eða F filmum er hægt að komast af með 50% minni geislaskammta en ekki er víst að allir tannlæknar nái þeim árangri.

Notkun stafrænnar tækni við röntgenmyndatöku hjá tannlæknum hefur einnig aukist en sú þróun er hægari. Í dag er áætlað að um 10% tannlækna séu með slík tæki en gera má ráð fyrir því að stafrænir nemar þurfi eingöngu fjórðung af þeirri geislun sem filmur þurfa. Stafrænir myndmiðlar eru í sókn hjá tannlæknum, eins og annars staðar í læknifræðilegri myndgreiningu og má búast við því að filmunotkun hverfi smá saman.

Grundvallarregla Alþjóðageislavarnaráðsins vegna notkunar jónandi geislunar við skjúkdómsgreiningu er að geislaskömmtum skuli haldið eins lágum og unnt er með skynsamlegu tilliti til aðstæðna svo og að ávinningur sjúklings skuli ætíð vera meiri en áhætta af hennar völdum (ICRP, 1990). Vegna þess að hægt er að ná góðum myndum til sjúkdómsgreiningar af tönnum með næmari filmum og með stafrænni tækni er augljós framför í því frá sjónarhorni geislavarna að nota þessa nýju tækni. (Þ.S.2006)