Frændþjóðir okkar hafa á undanförnum árum lagt mikið fé í að byggja upp viðbúnað til þess að geta tekið á ýmsum málum sem varða geislavirk efni sem hafa dreifst vegna slyss eða ásetnings. Geislavarnastofnanir hafa byggt uppt þekkingu á þessu sviði og viðbragðsaðilar (t.d. lögregla, björgunarliðar, heilbrigðisstarfsfólk, tollverðir, hermenn) hafa fengið ýmsan búnað til að leita að og meta geislavirk efni. Þessi mikla fjárfesting skilar sér þó ekki ef þessir aðilar geta ekki unnið saman. Dagana 30. september – 5. október gengust Svíar fyrir umfangsmikilli æfingu þar sem finna þurfti og meta geislavirk efni við ýmsar aðstæður. Fyrstu tveir dagarnir fóru í undirbúning, en sjálf æfingin var 2. – 5. október. Við sviðsetningu þátta í æfingunni var miðað við atburði sem hafa gerst, þó með einni undantekningu: þátttakendur þurftu að glíma við afleiðingar sprengingar, þar sem sprengjan hafði verið notuð til að dreifa geislavirkum efnum („dirty bomb“). Slíkri sprengju hefur ekki verið beitt af hryðjuverkamönnum til þessa, en í síðustu viku var þó sagt frá því að einn maður hafi játað fyrir rétti að undirbúa hryðjuverk þar sem beita átti slíkri sprengju (sjá t.d. tilvisun í frétt BBC hér að neðan). Aðrar Norðurlandaþjóðir sendu ýmis konar lið (sérfræðinga, viðbragðsaðila, hermenn) og búnað (þyrlur, færanlegar rannsóknastofur í bílum eða gámum, mælingabíla auk ýmis konar mælitækja).

Tveir starfsmanna Geislavarna ríkisins tóku þátt í æfingunni. Stofnunin hefur ekki haft tök á því að koma sér upp búnaði svipuðum þeim sem frændþjóðir okkar nota. Niðurstöður úr æfingunni liggja ekki fyrir, en árangur virðist hafa verið góður miðað við takmarkaðan tækjabúnað og aðstæður. Þátttakan var mjög mikilvæg þjálfun á fjölbreytilegum vettvangi, auk þess sem einstakt tækifæri gafst til viðræðna við ýmsa færustu sérfræðinga Norðurlanda á þessu sviði. Meðal annars var rætt um hvaða mælitækni og viðbrögð væru við hæfi á Íslandi og gengið var frá kröfulýsingu vegna sameiginlegrar tækjasmíði Geislavarna ríkisins og Geislavarnastofnunar Finnlands, STUK.

Geislavarnir ríkisins munu miðla reynslu af æfingunni til viðeigandi aðila hérlendis.

Frétt BBC frá 12. okt um að maður hafi játað fyrir rétti að hafa ætlað að nota sprengju blandaða geislavirkum efnum til hryðjuverka.

Vefsíða Geislavarnastofnunar Svíþjóðar, SSI

Kynning SSI á DEMOEX æfingunni

Vefsíða Geislavarnastofnunar Noregs

Beinn tengill á frétt um þátttöku Norðmanna í æfingunni (þar má m.a. sjá rannsóknastofu í gámi sem Norðmenn komu með og sérútbúinn mælingabíl)


Myndir:


Mynd 1.

Mynd 1. Einn starfsmanna Geislavarna við æfingu sem fólst í að þekkja og meta magn geislavirks efnis á þekktum stað (við staurinn á myndinni). Þekkja má efnið út frá geislunarrófi þess í glugga mælitækis, magnið er metið út frá styrk geislunarinnar (jafnframt þarf að meta fjarlægðina). Þessi æfing var ein sú einfaldasta, því staðsetning geislavirku efnanna var almennt ekki gefin.

Mynd 2.

Mynd 2.   Tveir starfsmanna Geislavarna við mat á geislun á svæði þar sem sprengja með geislavirkum efnum átti að hafa sprungið.  Þetta var sviðsett á æfingasvæði sænska hersins.  Töluverð geislun mældist á bak við strætisvagninn og finna mátti minna magn efna hér og þar á svæðinu.

 

18. október

Sigurður Emil Pálsson,

sviðstjóri vöktunar- og viðbúnaðarsviðs