Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2017 voru kynntar við hátíðlega athöfn þann 10. maí sl. á Hilton Reykjavík Nordica. Um er að ræða starfsánægjukönnun sem gerð var á vegum SFR stéttarfélags í almannaþjónustu og fjármálaráðuneytisins. Könnunin náði til yfir 200 stofnana en þeim er skipt í þrjá flokka eftir stærð.

Geislavarnir ríkisins eru þess heiðurs aðnjótandi að vera í hópi þeirra stofnana þar sem starfsánægja starfsmanna er hvað mest.  Stofnunin var valin í hóp Fyrirmyndastofnana 2017 og lenti auk þess í þriðja sæti í flokki minni stofnana í könnuninni.

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar má finna á heimasíðu SFR.

Hjá Geislavörnum starfa 10 starfsmenn í um 8 stöðugildum. Við leggjum mikið upp úr því að hafa starfsandann og vinnuaðstæður eins og best verður á kosið. Niðurstaða könnunarinnar er staðfesting á því að starfsmönnum stofnunarinnar líður vel í vinnunni. Geislavarnir hafa í mörg ár stýrt starfsemi stofnunarinnar í samræmi við ISO 9001 gæðastjórnunarstaðalinn.  Stofnunin fékk vottun frá faggildum aðila, British Standards Institution (BSI) árið 2008 fyrir alla starfsemi stofnunarinnar, fyrst allra ríkisstofnana. Vottunin gildir í 1 ár í senn og hefur verið endurnýjuð á grundvelli árlegrar úttektar síðan 2008.

Starfsánægjukönnun SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar er nýtt ásamt öðrum mælingum til að stuðla að enn frekari umbótum í rekstri Geislavarna. Ánægt starfsfólk er lykilatriði í því að reksturinn gangi vel og að starfsemin skili tilætluðum árangri. Við tökum starfsmannamálin alvarlega eins og önnur verkefni en reynum samt að halda í húmorinn.