Í janúar skipaði fjármálaráðherra nefnd til þess að velja ríkisstofnun sem skarað hefur fram úr og verið til fyrirmyndar í starfi sínu. Í nefndinni voru Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnsýslufræðingur, og Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis. Með nefndinni störfuðu Angantýr Einarsson, skrifstofustjóri og Arnar Þór Másson stjórnmálafræðingur í fjármálaráðuneytinu.

Óskað var eftir tilnefningum frá ráðuneytum auk þess sem ríkisstofnanir gátu sjálfar óskað eftir þátttöku. Alls tóku 15 stofnanir þátt að þessu sinni. Horft var til stefnumótunar, framtíðarsýnar og markmiðssetningar stofnana við ákvörðun um valið. Einnig var horft til stjórnunaraðferða og hvernig stjórnendur og starfsmenn fylgja eftir að settum markmiðum sé náð. Skoðað var hvaða aðferðum stofnanir beita við að þróast og bæta árangur sinn í síbreytilegu umhverfi, auka nýjungar í þjónustu við notendur og bæta liðsheild innan stofnananna. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að starfsemi ríkisstofnunar til fyrirmyndar væri árangursrík, skilvirk og að stjórnendur legðu áherslu á að gera betur.

Umsögn dómnefndar um Geislavarnir ríkisins:
Geislavarnir ríkisins er fámenn stofnun sem þó er vel þekkt á alþjóðavísu á sínu sviði. Stefnumótun og framkvæmd hennar er til fyrirmyndar. Stofnunin notar aðferðafræði samhæfðs árangursmats (eða balanced scorecard) við utanumhald um framkvæmd stefnunnar og hefur sniðið lausnina að sínum þörfum. Jafnframt vinnur stofnunin að innleiðingu gæðavottunarkerfis ISO 9000 sem tekið verður í notkun í loks árs. Stofnunin beitir kostnaðargreiningu með markvissum hætti og undanfarin ár hefur framleiðni hennar aukist til muna. Starfsmannastefnan er skýr og m.a. umbunað fyrir góðan árangur. Undanfarin ár hafa stjórnendur Geislavarna ríkisins sýnt hvernig hægt er að ná árangri þrátt fyrir smæðina og það gætu aðrar fámennar ríkisstofnanir tekið sér til fyrirmyndar.

Geislavarnir eru reyndar komnar lengra með gæðavottunarkerfið en segir í mati dómnendar því kerfið var innleitt í lok árs 2007 og stefnt að vottun skv. ISO 9000 fyrir árslok 2008.

Frétt á vefsíðu Fjármálaráðuneytis

Frétt á vefsíðu Heilbrigðisráðuneytis