Á undanförnum árum hefur verið vaxandi áhersla á skimun eftir geislavirkum efnum á landamærum.  Þótt engin ástæða sé til að ætla að nokkur ætli sér að smygla geislavirkum efnum hingað til lands, þá er Ísland í þjóðbraut flutninga yfir Norður-Atlantshafið, bæði hvað snertir flutninga með flugi og á sjó.  Það er mikilvægt að geta sýnt fram á að hérlendis sé ekki síðra eftirlit en í grannlöndum okkar, bæði til að forðast að flutningar um Ísland verði talin auðveld smyglleið og einnig til þess að forðast íþyngjandi ráðstafanir móttökulanda ef þeim finnst skimun ábótavant hér.

Landhelgisgæslunni hefur einnig verið afhentur svipaður búnaður til geislaskimunar úr lofti, hann má nota úr þyrlu eða flugvél.  Með þessum búnaði má finna og greina geislamengun vegna geislaslyss (kjarnorkuslyss) sem kann að berast hingað til lands, t.d. frá kjarnorkuverum í grannlöndum eða kjarnorkuknúnum skipum eða kafbátum.  Þótt ólíklegt sé að áhrifa slíkra slysa myndi gæta hérlendis, þá er mjög mikilvægt að geta sýnt skjótt fram á með mælingum að áhrif slyss séu takmörkuð.  Órökstuddur orðrómur getur á skömmum tíma haft alvarleg áhrif á viðskipti, t.d. á útflutning sjávarafurða.  Verið er að útfæra skipulag skimunar úr lofti og verður það kynnt nánar síðar.

Geislakimunarbúnaðurinn byggist á því að nota mjög stóra og næma geislanema.  Búnaðurinn tilkynnir sjálfkrafa um alla óvænta hækkun geislunarstyrks og þekkir algeng geislavirk efni.  Niðurstöður mælinga á reynslutíma verða teknar reglulega til nákvæmrar greiningar hjá Geislavörnum ríkisins og eins ef eitthvað óvænt kemur upp sem krefst skjótrar greiningar.  Jafnvel þótt ekkert óeðlilegt mælist, þá er kortlagning  náttúrulegrar geislunar, sem er í öllu okkar umhverfi, mikilvæg, því með því að þekkja bakgrunninn má meta óeðlileg frávik með mun meiri næmni en ella.

Samvinnu Geislavarna ríkisins og Embættis Tollstjóra var getið í nýlegri frétt á vef Geislavarna (sjá frétt GR 21.5.2013, Nýjungar í þróun geislamælitækni: Norrænn fundur í Reykjavík og mælingar)

Sjá einnig frétt um afhendingu þessa búnaðar á vef Embættis Tollstjóra, www.tollur.is

Nánari upplýsingar veitir Óskar Halldórsson Holm (oh@gr.is)

Mynd:  Frá afhendingu geislaskimunarbúnaðar til Tollgæslunnar.  Á myndinni eru (frá vinstri) Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins; Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður og Sigurður Emil Pálsson, viðbúnaðarstjóri Geislavarna ríkisins.  Á milli Kára og Sigurðar má sjá gráan kassa með geislanemum skimunarbúnaðarins.