Geislavarnir ríkisins tóku gammagreini í notkun á rannsóknastofu sinni sumarið 1989. Þá var nauðsynlegt að geta metið styrk geislavirks úrfellis í íslenskum matvælum, m.a. vegna útflutnings. Sjónir beindust einkum að einu geislavirku efni, sesín-137, því það var magn þess sem gat haft takmarkandi áhrif á matvælaframleiðslu í ýmsum ríkjum Evrópu í kjölfar slyssins í Tsjernóbyl 1986. Áhrif slyssins hér á landi voru hverfandi og staðfesta þurfti það með mælingum. Geislavarnir ríkisins hafa síðan vaktað styrk sesíns í umhverfi og helstu matvælum framleiddum hérlendis.

Á síðari árum hefur sú þróun orðið alþjóðlega að leggja æ meiri áherslu á viðbúnað og að rannsóknastofur geti glímt við að þekkja óvænt geislavirk efni í sýnum og meta magn þeirra. Geislavarnir ríkisins eru því að leggja meiri áherslu á þennan þátt: Að geta greint sýni af óþekktri gerð með sem mestri nákvæmni. Stofnunin er jafnframt að vinna að þvi að fá þessar mælingar faggiltar. Þótt gammarófsmælingar hvíli fræðilega á einföldum og traustum grunni, þá geta leynst ýmsar gildrur þegar greina á rófið til að meta magn óþekktra geislavirkra efna. Mismunandi geislar geta runnið saman í skynjaranum og eitt efni getur verið að umbreytast vegna geislavirkni í annað efni (jafnvel meðan á mælingu stendur).  Til þessa og ýmissa annarra þátta verður að taka tillit þegar niðurstöður mælinga eru túlkaðar.

Til þessa hafa Geislavarnir einkum notað eigin hugbúnað við túlkun mælinga á geislavirku sesíni og samkvæmt niðurstöðu samanburðarmælinga á fyrri árum, þá hefur það gefið góða raun.  Til að glíma við óþekkt efni þarf hins vegar aðra aðferð við túlkun og stofnunin hefur því verið að prófa að nýta forrit á almennum markaði, þannig að tekið sé tillit til framangreindra skekkjuvalda.  Þótt þetta forrit sé eitt þeirra sem mest er notað við þessar greiningar, þá er ekki vitað til þess að aðrar rannsóknastofur á Norðurlöndum beiti þessum leiðréttingum þegar forritið er notað.  Geislavarnir tóku þátt í alþjóðlegri samanburðarprófun NPL fyrir ári síðan til að kanna hversu vel hefði miðað í beitingu leiðréttinga í gammagreiningu.  Meðal þátttakenda voru helstu rannsóknastofur Evrópu á þessu sviði.  Niðurstöðurnar í fyrra voru þær að Geislavarnir lentu í hópi 12 bestu (sem greindu allt rétt innan uppgefinna óvissumarka) af þeim 78 sem tóku þátt.  Niðurstöðurnar sem kynntar voru í síðustu viku voru svipaðar, Geislavarnir voru í hópi þeirra 9 bestu af 72 þátttakendum.

Sjá vefsíðu NPL með kynningu á niðurstöðum:
http://www.npl.co.uk/ionising-radiation/radioactivity/collaboration/npl-environmental-radioactivity-proficiency-test-exercise-2009

Lokaskýrsla NPL vegna æfingar 2008 (PDF skjal, 1,9 MB)

Sjá einnig frétt um niðurstöðu prófunar í fyrra.

 

SEP & ÓH