Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2020 sem gerð var á vegum Sameykis, stéttarfélags í almannaþjónustu voru kynntar 14. október 2020. Könnunin var unnin í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og náði til um 12 þúsund starfsmanna.   

Geislavarnir ríkisins urðu þess heiðurs aðnjótandi að vera í hópi þeirra stofnana þar sem starfsánægja starfsmanna er hvað mest.  Stofnunin lenti í öðru sæti minni ríkisstofnana og hlýtur þar með nafnbótina Fyrirmyndarstofnun 2020. 

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar má finna á heimasíðu Sameykis. 

Hjá Geislavörnum starfa 10 starfsmenn í um 8 stöðugildum. Við leggjum mikið upp úr því að hafa starfsandann og vinnuaðstæður eins og best verður á kosið. Niðurstaða könnunarinnar er staðfesting á því að starfsmönnum stofnunarinnar líður vel í vinnunni.  

Geislavarnir hafa í mörg ár stýrt starfsemi stofnunarinnar í samræmi við ISO 9001 gæðastjórnunarstaðalinn.  Stofnunin fékk vottun frá faggildum aðila, British Standards Institution (BSI) árið 2008 fyrir alla starfsemi stofnunarinnar, fyrst allra ríkisstofnana. Gæðakerfið hefur nýst vel til að taka á öllum verkefnum, þar með talið verkefnum og umbótum sem tengjast aðbúnaði starfsmanna. 

Starfsánægjukönnunin Stofnun ársins er nýtt ásamt öðrum mælingum til að stuðla að enn frekari umbótum í rekstri Geislavarna. Ánægt starfsfólk er lykilatriði í því að reksturinn gangi vel og að starfsemin skili tilætluðum árangri. Við tökum starfsmannamálin alvarlega eins og önnur verkefni og reynum að vinna öll verkefni með alúð og fagmennsku. 

Geislavarnir vilja þakka Sameyki fyrir mikilvægt framlag til þess að auka starfsánægju með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.