HERCASamtök Evrópskra Geislavarnastofnana – HERCA hafa stofnað vinnuhóp til að vinna að samræmdum reglum og leiðbeiningum um notkun á jónandi geislunar við dýralækningar innan Evrópu. Hópurinn á að skila tillögum sínum haustið 2015.

Undanfari þessarar vinnu var ábending árið 2013 frá European College of Veterinary Diagnostic Imaging (ECVDI) til HERCA um að löggjöf og reglur varðandi notkun geislunar í dýralækningum væri eingöngu til staðar í nokkrum löndum Evrópu og greinilegt að samræmi milli landa væri ekki mikið. ECVDI, sem þýða má sem Evrópusamtök röntgendýralækna, fór fram á að HERCA mundi skoða stöðu þessara mála og leggja til leiðir til úrbóta.

Sama ár fór fram könnun meðal HERCA landanna, þar sem litið var til laga og reglugerða um geislavarnir við dýralækningar og notkun dýralækna á jónandi geislun, ásamt upplýsingum um menntun og þjálfun þeirra í geislavörnum. Niðurstöðurnar gefa til kynna mikin breytileika í lagakröfum á milli landa, ásamt  því að aukin notkun á flóknari myndgerðarbúnaði er áberandi, s.s. við inngripsrannsóknir, tölvusneiðmyndarannsóknir, kjarnlæknisfræði rannsóknir, svo og búnaði til geislameðferðar.

Í framhaldi af þessum niðurstöðum var ákveðið að stofna vinnuhóp innan HERCA sem mun vinna tillögur að samræmdum reglum og leiðbeiningum út frá eftirfarandi þáttum:

  1. Áhersla verður á geislavarnir fólks (dýralækna og aðstoðarmanna þeirra) fremur en dýra
  2. Miða skal við þrepaskipta nálgun „graded approcah“
  3. Leggja skal áherslu á menntun og þjálfun dýralækna og aðstoðarmenn þeirra
  4. Tillögurnar á að vinna í samstarfi við fagsamtök innan dýralækninga.

Sjá frétt á vefsetri  HERCA

 

Nánari upplýsingar veitir Guðlaugur Einarsson.