herca-logo-nytt-230x117Notkun jónandi geislunar við myndgreiningu og læknismeðferð dýra fer vaxandi í Evrópu.  Víða má finna fullkomin sjúkrahús fyrir dýr með myndgreiningardeildum sem hæfa hátæknisjúkrahúsum.

HERCA (Heads of the European Radiological protection Competent Authorities) stofnaði vinnuhóp um geislavarnir í dýralækningum árið 2012 og eitt af verkefnum hans var að kanna stöðu geislavarna við dýralækningar.  Gerð var könnun og svör fengust frá 24 löndum.  Könnunin leiddi í ljós að víðast hvar eru flestar gerðir myndgreiningar sem standa mönnum til boða notaðar í dýralækningum líka.  Tölvusneiðmyndir og inngripsrannsóknir eru t.d.  notaðar í dýralækningum í 90% landanna og rannsóknir gerðar með geislavirkum efnum í 75% þeirra.  Í tæplega helmingi landanna sem svöruðu er framkvæmd geislameðferð á dýrum.  Einnig kom í ljós að mikill munur er á milli landa hvaða kröfur dýralæknar þurfa að uppfylla til að fá leyfi til að nota jónandi geislun).

Nú er starfandi innan HERCA vinnuhópur sem hefur það markmið að gera ráðgefandi leiðbeiningar um geislavarnir við dýralækningar og með þeim að stuðla að samræmdum vinnubrögðum í Evrópu.

Vinnuhópurinn leggur höfuðáherslu á geislavarnir fólks sem kemur að notkun jónandi geislunar í dýralækningum. Unnið er að  tillögum að kröfum um menntun og þjálfun þeirra sem framkvæma geislun í dýralækningum, byggðar á kröfum til starfsmanna við læknisfræðilega myndgreiningu.  Samstarf er við fulltrúa greinarinnar og er vinnan komin vel áleiðis.

Hér má lesa um það sem verið er að gera á vettvangi HERCA tengt dýralækningum og hér má lesa helstu niðurstöður könnunarinnar.