Cone Beam Computed Tomography (CBCT) eru ný sérhæfð röntgentækni sem m.a. er notuð í tannlæknisfræði þar sem myndefnið er andlitsbein, tennur og kjálkar. Um er að ræða eins konar tölvusneiðmyndatæki (TS) sem gefa möguleika á tví- (2D) og þrívíðri (3D) myndvinnslu. Einnig er um að ræða kjálkasneiðmyndatæki (e. Orthopantomography – OPG), þar sem ný
slík tæki gefa einnig möguleika á þrívíðri myndvinnslu eins og CBCT tæki gera.

CBCT tæknin hefur í för með sér geislaskammta á sjúklinga sem eru 10-100 sinnum stærri en fylgja t.d. venjulegri rannsókn í OPG tæki. Tækin leyfa val á mismunandi háspennu og öðrum tökugildum, mismunandi stærð myndsvæðis á sjúklingi og eru breytileg að mörgu leyti á milli framleiðanda.

Þar sem notkun CBCT tækja hefur í för með sér nokkurt geislaálag, er notkun þeirra háð hliðstæðum reglum og gilda fyrir TS-tæki sem notuð eru við læknisfræðilega myndgreiningu.

Í leiðbeiningunum er gerð grein fyrir þeim kröfum vegna geislavarna sem gilda fyrir uppsetningu og notkun á CBCT tækjum í tannlækningum. Meðal annars er um að ræða kröfur um menntun og þekkingu ábyrgðarmanns og starfsmanna, svo og kröfur um gæðaeftirlit, skráningu geislaskammta ofl..

Leiðbeiningarnar eru unnar í samráði við Tannlæknafélag Íslands og kunna Geislavarnir þeim Jóni Viðari Arnórssyni tannlækni og Teiti Jónssyni, deildarforseta tannlæknadeildar HÍ , bestu þakkir fyrir gagnlegar ábendingar.

Leiðbeiningarnar eru hér

12. maí 2011

GE