Náttúruleg geislavirk efni koma hvarvetna fyrir í umhverfi okkar, þar á meðal í andrúmsloftinu. Þau eiga rætur að rekja til geislavirkra efni í bergi og jarðvegi (til dæmis radon) eða eru mynduð af geimgeislum hátt í lofthjúpnum (til dæmis geislakol). Einnig geta manngerð geislavirk efni sloppið út í andrúmsloftið frá kjarnorkuiðnaði og borist víða.

Mikilvægt er að þekkja vel ríkjandi ástand andrúmslofts til að geta greint frávik frá því af nákvæmni.

Í þessu skyni styðjast Geislavarnir einkum við gammastöðvar á Íslandi, gögn frá EURDEP (European Radiological Data Exchange Platform) og CTBTO (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organisation).

Vakni grunur um að geislavirk efni hafi borist út í andrúmsloftið má einnig styðjast við færanlega svifrykssafnara. Með næmum mælitækjum má þá einnig hefja skimun og leit.