Í greininni er gerð grein fyrir mælingum á sesín-137 í mjólk sem gerðar voru hérlendis árin 1964-1967, í kjölfar geislavirka úrfellisins frá kjarnorkusprengjutilraununum. Skýra má mikið af breytileika úrfellisins með úrkomu. Með því að umreikna niðurstöður síðari tíma mælinga á magni sesíns í jarðvegi yfir til sjöunda áratugarins má sjá nokkurn breytileika eftir landshlutum í hlutfallslegri tilfærslu efnisins frá jarðvegi í mjólk.

Langtímabreytingar á styrk sesíns í mjólk voru einnig kannaðar með því að greina gögn um mælingar á styrk sesíns í mjólk 1990 – 2007 og í mjólkurdufti 1986 – 2007, auk gagna um mælingar á styrk efnisins í jarðvegi. Í ljós kom að styrkur efnisins rýrnar um helming á 13,5 árum á Norðurlandi og 10,5 árum á Suðurlandi.  Þetta er hæg rýrnum miðað við hvað sést víðast annars staðar og þýðir að áhrifa geislavirks úrfellis gætir að sama skapi lengur hérlendis.  Annars staðar á Norðurlöndum hefur langtímarýrnun um helming oft orðið á um 6-7 árum og nær aldrei á lengri tíma en 9 árum.  Hlutfallsleg tilfærsla frá jarðvegi í mjólk er einnig tiltölulega mikil.  Skýringa á hægri rýrnun og tiltölulega mikilli tilfærslu sesíns er helst að leita í gerð íslenska eldfjallajarðvegsins, sem bindur sesínið ekki eins fast og aðrar jarðvegsgerðir.

Það sesín sem er að finna nú í jarðvegi og mjólk skiptir engu máli heilsufarslega. Geislaálag af þess völdum er einungis örlítið brot af geislaálagi af völdum náttúrulegrar geislunar hérlendis, sem er þó lítið miðað við önnur lönd vegna þess hve íslenski berggrunnurinn er snauður af geislavirkum efnum.

Niðurstöður kynntar í viðauka staðfesta að áhrif Tjernobyl slyssins 1986 á Íslandi voru lítil. Innan við 20% af því sesín-137 sem finna mátti í mjólkurdufti hér á þeim tíma má rekja til slyssins.

Höfundar greinarinnar eru Sigurður Emil Pálsson, Brenda J. Howard, Kjartan Guðnason og Magnús Á. Sigurgeirsson.  Sigurður Emil og Kjartan eru starfsmenn Geislavarna ríkisins og Magnús var það einnig á þeim tíma sem rannsóknin var gerð.  Brenda J. Howard vinnur hjá rannsóknastofnuninni Centre for Ecology and Hydrology í Englandi og hefur verið leiðandi í mörgum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum og úttektum.  Hún hlaut MBE orðu Bretadrottningar árið 2002 fyrir framlag sitt til vísinda.

Titill greinar er Long-term transfer of global fallout 137Cs to cow‘s milk in Iceland og er hún fáanleg ókeypis á Íslandi af Vefnum vegna landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.  Nálgast má greinina á eftirfarandi slóð:

http://dx.doi.org/10.1007/s10661-011-2498-4

Greininni fylgir einnig viðauki

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Emil Pálsson, sep@gr.is