Fjölmiðlar hafa fjallað um geislavirk efni sem mælst hafa á nokkrum stöðum í Evrópu undanfarnar vikur. Um er að ræða samsætuna 131I (Joð-131), en hún er manngerð og getur átt uppruna í margskonar starfsemi sem tengist t.d. læknavísindum og iðnaði, þ.m.t. kjarniðnaði. Geislavirk efni mælast af og til í andrúmslofti og getur verið snúið að rekja þau til uppsprettu, einkum þegar þau mælast í afar litlu magni og dreift um álfuna, eins og raunin er nú.

Rétt er að hafa í huga að í stórum dráttum er mælingum á geislavirkni í andrúmslofti hagað með tvenns konar hætti. Annars vegar eru síritandi mælar sem nema heildargammageislun í umhverfi sínu. Niðurstaða slíkrar mælingar er birt sem µSv/h. Dæmi um aðgengilegt yfirlit slíkra mælinga í Evrópu er kort EURDEP (sjá einnig nýlega frétt á vef Geislavarna um það). Hins vegar eru tæki sem safna rykögnum í síur í lengri tíma, allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur. Gammageislun frá loftsíunum er síðan mæld með tækjum sem geta sagt til um einstakar kjarntegundir og styrk þeirra, oftast í µBq/m3. Þetta skýrir hvers vegna hægt er að segja til um tilvist einstakra kjarntegunda í hverfandi litlu magni á meðan heildargammageislun hækkar ekki að neinu marki.

Finnska geislavarnastofnunin birtir jafnan fréttir ef óvenjulegar niðurstöður verða á mælingum á geislavirkni í andrúmslofti. Svo er einmitt nú og má benda á fréttatilkynningar um óvenjulegar mæliniðurstöður síðustu vikna hér.

Norska geislavarnastofnunin birtir einnig rauntímagögn eins og raunin er með fjölda annarra geislavarnastofnana.

CTBTO, sjálfstæð og hlutlaus alþjóðastofnun sem fylgist stöðugt með geislavirkni í andrúmslofti hefur birt fréttatilkynningu af þessu tilefni, en fjöldi fyrirspurna hefur borist þangað. Ein mælistöðva CTBTO er í Reykjavík og annast Geislavarnir ríkisins rekstur hennar. Hún er af þeirri gerð sem myndi nema og magngreina einstakar kjarntegundir ef þeirra yrði vart.

Ekkert I-131 hefur mælst á Íslandi undanfarna mánuði og ár, eða allt frá vikunum eftir slysið í Fukushima fyrir réttum sex árum. Sá styrkur efnisins sem mælst hefur í Evrópu undanfarnar vikur er langt fyrir neðan þau mörk þar sem heilsufarslegra áhrifa gæti orðið vart.