Á undanförnum vikum hefur talsvert verið leitað til Geislavarna ríkisins með fyrirspurnir um GSM möstur og hugsanleg skaðleg heilsufarsáhrif vegna þeirra. Oftast er þetta vegna nýrra senda og mastra sem verið er að setja upp. Sendarnir eru fyrir nýja gerð af farsímum (3. kynslóð) sem geta flutt meira magn af upplýsingum en þarfnast jafnframt fleiri farsímamastra með styttra á milli sín. Jafnframt eru nýjir aðilar að hasla sér völl í rekstri símkerfa.

Staða rannsókna á áhrifum farsíma og farsímamastra á heilsu manna hefur lítið breyst frá því að hin svokallaða Stewart skýrsla var samin árið 2000. Upplýsingar um hana er m.a. að finna á vefsíðu Geislavarna ríkisins

Öðru hvoru hafa birst niðurstöður rannsókna og samantekta á rannsóknum um farsíma og heilsufar. Sjá til dæmis breskar skýrslur um rannsóknir frá 2000-2004 sem eru eins konar viðbætur við Stewart skýrsluna og segir frá í frétt á vefsíðu Geislavarna þann 12. 01.2005

Þann 21. september 2004 gáfu norræn geislavarnayfirvöld frá sér sameiginlega yfirlýsingu um farsíma og heilsufar þar sem segir að engin vísindaleg sönnun hafi fengist fyrir skaðlegum heilsufarslegum áhrifum af farsímafjarskiptum, hvorki frá sendistöðvum né frá handtækjum, sem nota sendistyrk neðan viðmiðunarmarka og grunngilda sem Alþjóða geislavarnaráðið um ójónandi geislun (ICNIRP) hefur mælt með.

Eins og fram kemur í frétt um þessa yfirlýsingu á vefsíðu Geislavarna þann 21.09.2004, var engu að síður mælt með því að í varúðarskyni væri dregið úr óþarfa geislun, sérstaklega á börn.

Ekkert hefur enn komið fram sem breytir fyrri afstöðu Geislavarna ríkisins um geislun frá farsímum og farsímamöstrum en áfram mun stofnunin fylgjast með niðurstöðum rannsókna á þessu sviði.