Það sem við köllum geislun er í raun flutningur á orku, annað hvort sem agnastraumur eða sem rafsegulbylgjur (eins og ljós). Geislun er flokkuð eftir þeim áhrifum sem hún hefur og er oft skipt í tvo flokka: annars vegar jónandi geislun og hins vegar ójónandi geislun. Við jónun er rafeind fjarlægð frá sameind eða frumeind, sem verður við það rafhlaðin. Geislun er kölluð jónandi þegar hún hefur nógu mikla orku til að breyta sameindum í líkamanum og getur þannig valdið efnafræðilegum breytingum í frumum líkamans, sem geta síðan haft skaðleg áhrif á starfsemi frumunnar.

Dæmi um slíka geislun er röntgengeislun (e. x-rays) og gammageislun (e. gamma rays). Dæmi um geislun sem er ekki jónandi, þ.e. ójónandi, eru örbylgjur (e. microwaves), t.d. í örbylgjuofni, útfjólublá geislun, t.d. frá sólinni eða ljósabekkjum (e. ultraviolet rays) og venjulegt ljós. Til viðbótar er venja að nefna úthljóð eða ómun (e. ultrasound) sem hluta af flokknum ójónandi geislun, jafnvel þó þar séu ekki notaðar rafsegulbylgjur heldur hljóðbylgjur við orkuflutninginn.

Sjá einnig: