Í kjölfar slyssins í kjarnorkuverinu í Tjernóbyl, 1986, lögðu margar þjóðir áherslu á að skiptast á rauntímagögnum um styrk geislunar til þess að geta greint óeðlileg frávirk sem fyrst. Síritandi mælistöð var sett upp í Reykjavík sumarið 1991 og var þá strax farið að skiptast á gögnum við Svía. Nokkrum árum síðar náði þetta samstarf til allra Norðurlanda og síðar til allra aðildarlanda Eystrasaltsráðsins. Geislavarnir ríkisins eiga nú aðild að samstarfi að vegum Evrópusambandsins um gagnkvæm skipti á rauntímagögnum. Gögn frá mælistöðinni í Reykjavík urðu aðgengileg á opinni vefsíðu þessa samstarfs nú í desember:

http://eurdeppub.jrc.cec.eu.int/login.asp

Ýta þarf á ENTER til að fá fram skjámyndina.

Við Reykjavík greinanlegur blár punktur. Blái liturinn og smæðin gefur til kynna lág gildi (< 100 nSv/klst). Hægt er að stækka myndina, það verður þó að muna að ýta alltaf á „Map Refresh" eftir hverja breytingu til að sjá hana á kortinu.

Geislavarnir ríkisins hafa, í samvinnu við Veðurstofu Íslands, sett upp þrjár nýjar mælistöðvar á þessu ári. Sú fjórða verður sett upp síðar í þessum mánuði eða í janúar. Verður þá ein ný mælistöð í hverjum landsfjórðungi og rauntímagögn frá þeim munu einnig verða aðgengileg erlendum samstarfsaðilum með sama hætti og gögnin frá gömlu stöðinni.

Það er mikilvægt að leggja fram rauntímamæligögn frá Íslandi með þessum hætti, því á móti kemur aðgengi að rauntímagögnum annarra þjóða. Komi til óeðlilegrar dreifingar geislavirkra efna af einhverjum orsökum, þá er mjög mikilvægt að geta sem fyrst lagt mat á umfang og eðli dreifingarinnar.