Í liðinni viku birtist á vefsíðu ICRP, http://www.icrp.org/,  endurskoðuð drög að nýjum grunnráðleggingum ráðsins sem hafa verið í smíðum undanfarin ár. Þær grunnráðleggingar ráðsins sem nú er stuðst við komu út í riti ICRP nr. 60 árið 1990.

Framkvæmd geislavarna í flestum ríkjum heimsins byggir á leiðbeiningum ICRP.

Breyttar áherslur sem ICRP boðaði í drögum sem birt voru í júní 2004 vöktu hörð viðbröð víða og urðu tilefni mikillar umfjöllunar á alþjóðlegum vettvangi meðal annars hjá Kjarnorkumálastofnun OECD í París sem og hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni í Vínarborg. Mikill fjöldi umsagna þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar breyttar áherslur bárust á heimasíðu ICRP.

 

Nú hefur ICRP birt á vefsíðu sinni endurskoðuð drög að nýjum grunnráðleggingum ráðsins. Í nýju drögunum hefur verið tekið tillit til margra þeirra athugasemda sem gerðar voru við fyrri drög. Frestur til að skila inn athugasemdum við  nýju drögin er til 15. september. Stjórnarnefnd ICRP, kemur saman í byrjun nóvember og er vonast til að þá verði hægt að samþykkja útgáfu nýrra grunnráðlegginga ráðsins. Hvort það gengur eftir ræðst að miklu leiti af þeim athugasemdum og umsögnum sem berast á heimasíðuna fyrir 15. september. Nánar verður fjallað um þessi drög á þessum vettvangi síðar.