Að kvöldi 7. desember vaknaði grunur hjá starfsfólki Sjúkrahússins á Akureyri um að karlmaður hefði orðið fyrir geislabruna við vinnu sína í Háskólanum á Akureyri. Þar hafði hann meðhöndlað blýhólk sem mögulegt var talið að í væru geislavirk efni. Starfsmenn sjúkrahússins brugðust hárrétt við; sendu manninn í sturtu, öll föt, andlitsgríma og fleira, var sett í lokaðan poka og maðurinn settur í einangrun. Einnig voru gerðar ráðstafanir til þess að minnka útbreiðslu hugsanlegs geislasmits á heimili mannsins og vinnustað. Haft var samband við Geislavarnir ríkisins og tveir sérfræðingar fóru með mælibúnað norður með fyrsta flugi daginn eftir. Verkefni starfsmanna GR var fyrst og fremst að komast að því hvort um geislavirkt efni væri að ræða, og ef svo væri, hvaða efni. Mælingar á fötum mannsins, blýhólknum og geymslunni þar sem hann hafði verið sýndu enga geislavirkni og því ljóst að bruninn ætti sér aðrar orsakir. Mælingum var lokið fyrir hádegi og gátu þá allir andað léttar.

Það er mat Geislavarna að viðbrögð allra sem komu að málinu hafi verið til fyrirmyndar.

Ef grunur vaknar um geislamengun á alltaf að fjarlægja öll menguð föt og hreinsa efnið af húð eins fljótt og auðið er. Föt og annað sem getur verið mengað ætti að geyma afsíðis í lokuðum pokum þar til gengið hefur verið úr skugga um hvort um geislamengun er að ræða. Allir sem koma nálægt ættu að nota hanska og hlífðargrímur og leggja áherslu á að geislavirkt efni (jafnvel þó aðeins sé grunur um það) berist ekki inn í líkama fólks hvort sem er með innöndun, um munn eða um sár á húð.

Í neyðartilvikum hringið í 112.

Sjá einnig:
Óttuðust geislavirkni í HA en svo var ekki | akureyri.net

Óttuðust geislavirkni í HA eftir veikindi starfsmanns | RÚV (ruv.is)

Óttuðust geislavirkni í Háskólanum á Akureyri (mbl.is)

Alvarlegur grunur um geislavirkni reyndist sem betur fer rangur – Vísir (visir.is)

Dularfullur hólkur í Háskólanum á Akureyri reyndist ekki geislavirkur (frettabladid.is)