Capacent-Gallup hefur nýlokið árlegri könnun meðal ungmenna þar sem spurt var hvort viðkomandi hafi nýlega notað ljósabekk. Könnunin náði til 2773 Íslendinga á aldrinum 12-23 ára. Umræddar kannanir hafa á undanförnum árum sýnt litlar breytingar á notkun grunnskólanema á ljósabekkjum (12-15 ára) en nú hefur þeim fækkað úr 20% í 10% svarenda sem segjast hafa notað bekki einu sinni eða oftar á síðustu tólf mánuðum, sjá meðfylgjandi mynd:

Ungmenni_2010_bekkir

Þegar rýnt er í tölur Capacent-Gallup kemur í ljós að fækkun notenda er mest í hópi þeirra sem segjast hafa notað ljósabekk einu sinni eða tvisvar en hinsvegar er engin fækkun í hópi þeirra sem segjast hafa farið í bekki mánaðarlega eða oftar, samanber næstu mynd:

Ungmenni_2010_bekkir_oft

Sú þróun sem kemur fram á meðfylgjandi myndum gæti tengst nýlegri flokkun Alþjóðakrabbameinsstofnunarinnar, IARC á ljósabekkjum sem krabbameinsvaldandi og umræðu um fyrirhugaða lagasetningu sem banna mun notkun ungmenna yngri en 18 ára á ljósabekkjum. Hugsanlega hefur þeim nú þegar fækkað sem byrja að nota ljósabekki mjög ungir.

Samstarfshópur um varnir gegn útfjólublárri geislun var stofnaður í byrjun árs 2004. Í hópnum eru fulltrúar frá Geislavörnum ríkisins, Landlæknisembættinu, Félagi íslenskra húðlækna, Lýðheilsustöð og Krabbameinsfélaginu. Hópurinn hefur á hverju ári staðið fyrir átakinu Hættan er ljós sem beint er gegn ljósabekkjanotkun fermingarbarna. Fyrir hönd hópsins hefur Capacent-Gallup fylgst með ljósabekkjanotkun á Íslandi með könnunum á hverju vori.

Sjá einnig eldri fréttir um ljósabekkjanotkun:

Frétt 2010 um notkun 16-75 ára: /frettir/nr/437

Frétt 2009 um flokkun IARC /frettir/nr/399

Frétt 2009 um notkun grunnskólanema: /frettir/nr/393

ÞS