Það er sameiginlegt öllum reglugerðunum að verið er að uppfæra þær m.t.t. þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á lögum nr. 44/2002 um geislavarnir á undanförnum árum, svo og þeim breytingum sem orðið hafa á ráðleggingum frá Alþjóðageislavarnaráðinu (ICRP) og á geislavarnalöggjöf í Evrópu og víðar.  Sjá frétt 14. janúar sl.

Reglugerðirnar sem um ræðir eru:

  1. 1290/2015 Reglugerð um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfsemi þar sem notuð er geislun.  Helstu breytingarnar eru eftirfarandi: Verið er að innleiða nýtt hámark fyrir geislun á augastein og lækkar það úr 150 mSv/ári í 20 mSv/ári fyrir geislastarfsmenn í 15 mSv/ári fyrir nemendur og í 15 mSv/ári fyrir almenning. Þessi breyting er í samræmi við ráðleggingar ICRP í framhaldi af víðtækum rannsóknum sem gefa til kynna að áhættan sé meiri en áður var talið. Þá er í nýrri grein sett hámark fyrir ójónandi geislun og skal hún vera innan marka sem ICNIRP (Alþjóða geislavarnaráðið fyrir ójónandi geislun) setur.
  1. 1298/2015 Reglugerð um geislavarnir við notkun lokaðra geislalinda.  Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:  Nýtt ákvæði um réttlætingu notkunar þegar um nýja notkun er að ræða og að til staðar sé viðeigandi gæðaeftirlit í samræmi við umfang og þá áhættu sem starfseminni fylgir. Þá hafa ákvæði um geislavarnir starfsmanna og almennings verið styrkt.
  1. 1299/2015 Reglugerð um geislavarnir vegna notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun. Meginbreytingin felst í því að nú nær ein reglugerð yfir öll röntgentæki eða geislatæki sem gefa frá sér jónandi geislun, en auk röntgentækja sem notuð eru við læknisfræðilega myndgreiningu og hjá tannlæknum nær þessi reglugerð til tækja sem notuð eru í iðnaði, við öryggisgæslu og við dýralækningar. Þá nær hún einnig til annarra geislatækja, s.s. línuhraðla, sem notuð eru við geislameðferð, við öryggisgæslu og til hringhraðla sem notaðir eru við framleiðslu geislavirkra efna. Fyrstu sjö kaflar reglugerðarinnar eru almenn ákvæði sem ná til allra geislatækja en 8. kaflinn er eingöngu um læknisfræðilega notkun og skiptist hann í átta undirkafla. Í 9. kafla er fjallað um réttarfarslega notkun geislatækja og í 10. kafla er fjallað um aðra notkun s.s. við dýralækningar, í iðnaði og við öryggisgæslu.

Hvað læknisfræðilega notkun varðar má helst nefna að lögð er áhersla á að við alla notkun séu til staðar starfsmenn með viðeigandi þekkingu og reynslu, viðeigandi gæðaeftirlit sem nær til geislaálags sjúklinga vegna tiltekinna rannsókna og að öll notkun tækja sé skráð á viðeigandi og rekjanlegan hátt.