Á fundi norrænna kvörðunarstofa í lok október sem haldinn var í Ósló, var fjallað sérstaklega um kvörðun þeirra hundruða viðbúnaðarmæla á Norðurlöndum sem stöðugt vakta geislun í umhverfi og ætlað er að vara við geislaslysum eins og til dæmis varð í Tjernóbyl á sínum tíma. Á Íslandi reka Geislavarnir ríkisins fjóra slíka mæla í samvinnu við Veðurstofuna (sbr. eldri frétt) sjá einnig vefsíðu GR.

Við kvörðun þessara mæla er gagnlegt að fara með þá þangað sem er engin geimgeislun og sem minnst náttúruleg geislun frá jarðskorpunni. Á fundinum var íslenskum fulltrúa falið að kanna hversu vel Hvalfjarðargöngin henta til slíkrar kvörðunar en í þeim er geimgeislun hverfandi lítil vegna þess að þau eru langt undir yfirborði sjávar og einnig er geislun frá íslensku bergi mjög lítil. Páll Theódórsson eðlisfræðingur hefur af þeim sökum lengi notað göngin til rannsókna á næmum mælum á vegum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Við yfirborð jarðar er geimgeislun verulegur hluti af þeirri umhverfisgeislun sem mælist, á Íslandi er hún nálægt því að vera helmingur hennar. Geimgeislunin eru að mestu leyti kjarnar léttra atóma sem berast frá sólinni og úr öllum áttum utan úr geimnum. Norsku geislavarnirnar hafa nýlega fengið að gjöf þokuhylki sem gerir þessa geislun sýnilega þegar hlaðnir atómkjarnar mynda hvítar rákir í gufu úr alkóhóli sem þéttist á glerplötu. Myndin að neðan er tekin af þessu þokuhylki.

þokuhylki hjá NRPA

 

ÞS