Í ár eru 100 ár frá því að notkun geislavirka efnisins Radium (Ra-226) hófst við meðferð sjúkdóma hér á landi. Þetta var árið 1919 þegar Gunnlaugur Claessen læknir með aðkomu Oddfellowreglunnar stóð fyrir landssöfnun til þess að kaupa þessi efni. Efnin voru keypt frá The London Radium Institute, en hafa a.ö.l. komið þangað frá Radium stofnuninni í París, sem Marie Curie veitti forstöðu. Efnin, sem voru í lokuðum hylkjum, voru tekin í notkun það ár, en fluttust síðan til Röntgendeildar Landspítala þegar hún var tekinn í notkun árið 1930.

Notkuninni lauk svo árið 1987 með tilkomu betri tækni og efna. Síðan þá hafa efnin verið í öruggri geymslu, því förgunarleiðir fyrir geislavirk efni með langan helmingunartíma eru ekki fyrir hendi hér á landi.

Í því skyni að koma efnunum í varanlega geymslu eða til endurnýtingar erlendis var óskað eftir ráðgjöf og aðstoð frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA). Fyrir stuttu komu til landsins tveir sérfræðingar frá IAEA sem hafa langa reynslu af ráðgjöf og aðstoð við undirbúning og framkvæmd förgunar á þessum tilteknu efnum. Fram fór ítarleg skoðun á ástandi efnanna m.t.t. þess hvernig þarf að pakka þeim til flutnings og förgunar.

Við skoðun kom í ljós að ástand bæði stálhylkjanna sem innihalda geislavirka efnið og geymsla þeirra er í góðu lagi. En þar sem liðin eru tæplega 50 ár frá því efnið var sett í hylkin er tímabært að endurpakka þeim, annað hvort til endurvinnslu eða til förgunar. IAEA mun aðstoða við undirbúning þess og verða fengnir viðurkenndir sérfræðingar til verksins.  Vonast er til þess að endurpökkunin geti farið fram síðar á þessu ári eða því næsta, eða um leið og búið er að staðfesta mögulegar förgunarleiðir.

Starfsmenn IAEA og LSH að störfum

Starfsmenn IAEA og LSH að störfum

Radium hylki og nálar

Radium hylki og nálar