Á síðari árum hefur verið lögð mjög rík áhersla á að herða alþjóðlega samninga vegna umsýslu geislavirkra efna og tryggja að eftir þeim sé farið. Mikilvægt er að engar gloppur séu í þessu alþjóðlega samstarfi og því er lögð mikil áhersla á að auðvelda öllum ríkjum að gangast undir þessar skuldbindingar, einnig þeim þar sem engan kjarniðnað er að finna.

Geislavarnir ríkisins hafa fengið það hlutverk að annast framkvæmd þeirra samninga sem Ísland á aðild að gagnvart Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA) og lögð hefur verið áhersla á að uppfylla þær kröfur sem að Íslandi snúa, jafnvel þótt um sé að ræða kröfur sem að takmörkuðu leyti eiga við íslenskar aðstæður (t.d. tækni og efni til gerðar kjarnorkuvopna og geislavirkan úrgang frá kjarnorkuiðnaði). En með því að sýna að lítið ríki eins og Ísland uppfylli þessar kröfur, þá gefur það einnig mikilvægt fordæmi fyrir önnur ríki því það á í reynd ekki að vera neinu ríki ofvaxið að uppfylla kröfurnar og standa skil á þeim skýrslum sem krafist er.

Þetta framlag Íslands hefur vakið athygli og þótt vel til þess fallið að hvetja öll ríki til að uppfylla þær samningsbundnu kröfur sem þeim er ætlað. Fyrr á þessu ári var Ísland valið til að kynna á ráðstefnu IAEA hvernig smáríki hefur með góðum árangri uppfyllt tilkynningaskyldu sína varðandi samning um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (sjá frétt Geislavarna 20.2.2008, Ísland valið til kynningar á ráðstefnu IAEA).  Sá samningur gerir m.a. kröfur um reglubundnar tilkynningar eftir fastbundnu formi.

Samningurinn um örugga meðferð notaðs eldsneytis og um örugga meðferð geislavirks úrgangs (Joint Convention on the Safety of Spent Fuel Management and on the Safety of Radioactive Waste Management) var staðfestur af ríkisstjórn Íslands síðla árs 2005.  Markmið samningsins er þríþætt:

  • Að ná og viðhalda öryggi í allri meðferð á notuðu brennsluefni kjarnaofna og geislavirkum úrgangi um allan heim.
  • Að tryggja fullnægjandi varnir gegn hættu sem frá slíkum efnum getur stafað.
  • Að koma í veg fyrir og takmarka afleiðingar slysa vegna slíkra efna.

Samningurinn tekur ekki aðeins til úrgangs frá kjarniðnaði heldur til úrgangs vegna allrar notkunar geislavirkra efna, t.d. í læknisfræði og iðnaði.  Öll ríki hafa því hag af því að samningnum sé framfylgt.

Samkvæmt ákvæðum samningsins á að halda fund aðildarríkja hans eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti og þar á hvert ríki að leggja fram skýrslu um hvernig kröfur samningsins hafi verið uppfylltar. Síðasti fundur var vorið 2006 og lögðu Geislavarnir ríkisins þá fram skýrslu Íslands.  Næsti fundur verður vorið 2009 og er undirbúningur hans hafinn, m.a. hafa aðildarríki verið minnt á að skila skýrslum sínum.  IAEA hefur nú óskað eftir að fá að nota skýrslu Íslands frá 2006 sem fyrirmynd um hvernig ríki án kjarnorkuiðnaðar geti uppfyllt kröfur samningsins.  Það var samþykkt og dreifing skýrslunnar í þessu skyni er hafin.