Á vefsvæði Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) hefur verið birt frétt þess efnis að Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, hafi þegið boð stofnunarinnar um að vera forseti alþjóðlegs fundar um geislavarnir eftir kjarnorkuslysið í Fukushima. Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum IAEA í Vínarborg, 17. – 21. febrúar 2014.

Í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fukushima árið 2011 var gerð á vegum IAEA framkvæmdaáætlun um kjarnöryggi (IAEA’s Action Plan on Nuclear Safety). Framkvæmdaáætlunin, sem miðar að því að bæta kjarnöryggi í heiminum, var samþykkt á ársfundi stofnunarinnar í september 2011. Í þeim tilgangi gengst IAEA m.a. fyrir fundum og ráðstefnum þar sem sérfræðingar aðildarríkjanna greina orsakir og afleiðingar kjarnorkuslyssins í Fukushima með áherslu á hvaða lærdóm megi draga af því. Einnig er þar fjallað um hvernig bæta megi viðbrögð við kjarnorkuslysum og hvernig best sé að draga úr langtímaáhrifum þeirra.

Á fundinum í febrúar 2014 verður m.a. fjallað um þá geislun sem fólk varð fyrir og með hvaða hætti það var, ýmsa læknisfræðilega og þjóðfélagslega þætti, og aðgerðir til að draga úr afleiðingum slyssins til lengri tíma. Sérstök áhersla verður lögð á hvernig best sé að standa að miðlun upplýsinga til almennings þegar kjarnorkuslys verður og ýmsa þætti sem taka þarf tillit til við aðkomu íbúa að brýnum úrlausnarefnum eftir kjarnorkuslys, m.a. hreinsun lands og nýtingu þess eftir hreinsun sem og hvenær fólk snýr aftur til landsvæða sem voru rýmd eftir slysið. Frekari upplýsingar um fundinn er að finna hér.