Geislameðferð

Gammamyndavél í notkun

Gammamyndavél í notkun

Árið 1896 uppgötvaði Henri Becquerel geislavirkni efna og árið 1898 uppgötvaði Marie S. Curie og maður hennar Pierre Curie geislavirka frumefnið radín (e. radium), sem lengi var notað við geislalækningar.

Geislavirkni er eiginleiki sumra atóma, en þau geta verið annað hvort stöðug eða óstöðug. Atóm eru stöðug ef það ríkir orkujafnvægi á milli þeirra agna sem kjarni atómsins er gerður úr. Ef ekki ríkir jafnvægi hefur kjarninn yfir að ráða umframorku sem getur komið fram í viðbótarmagni af annað hvort nifteindum eða prótónum. Atóm sem hefur slíka umframorku, leitast við að ná jafnvægi með því að losa sig við umfram agnir eða lætur frá sér þessa orku á öðru formi, s.s. með gammageislun.

Í kjarnlæknisfræði (e. nuclear medicine) eru geislavirk efni notuð til að kanna virkni og ástand líkamsvefja og líffæra. Slíkar rannsóknir er í daglegu tali kallaðar ísótóparannsóknir eða ísótópaskann. Geislavirkt efni er valið með tilliti til hegðunar þess eftir að því hefur verið sprautað í sjúkling (eða gefið á annan hátt). Það safnast þá saman í ákveðnum líkamsvefjum eða líffærum.

Dreifing efnisins er mæld og skráð með myndavél sem nemur gammageislun frá efninu og skráir staðsetningu og magn hennar í tölvu. Þannig er hægt að búa til yfirlitsmynd af viðkomandi svæði.

Eins og við röntgenmyndatökur eru geislaskammtar sjúklinga mjög breytilegir eftir því hvaða svæði líkamans er verið að rannsaka og tegund og magn geislavirks efnis sem notað er.

Áður en geislavirkt efni er gefið fyrir ísótóparannsókn er mjög mikilvægt að konur á barnseignaraldri láti lækni eða annað starfsfólk röntgendeildar vita ef þær eru eða kunna að vera barnshafandi. (efni fyrir barnshafandi konur)

Hlekkir annað:

Upplýsingasíða IAEA um geislavarnir (rpop.iaea.org)  (starfsmenn) (almenningur og sjúklingar)

Evrópusamtök í Kjarnlæknisfræði (EANM)

Leiðbeiningarit GR

Sjá einnig:  Geislaálag sjúklinga við kjarnlæknisfræði