Slysið í kjarnorkuverinu í Tjernobyl, varð aðfaranótt 26. apríl 1986. Rætur þess voru hættuleg hönnun kjarnakljúfs sem gat orðið óstöðugur við vissar aðstæður, þannig að afl hans ykist stjórnlaust. Gerð var tilraun þessa nótt, þar sem rekstrarforsendur voru brotnar, starfsmönnum var þó ókunnugt um þennan hættulega galla í hönnun kljúfsins. Afleiðingin varð stjórnlaus aflaukning sem leiddi til gufusprengingar og síðar til annarrar sprengingar í kjölfarið. Eldar kviknuðu og geislavirk úrgangsefni úr kjarnakljúfnum dreifðust víða um lönd, en þó fyrst og fremst í Hvíta-Rússlandi og Úkraínu.

Mismunandi tölur hafa verið nefndar varðandi hversu margir kunni að deyja af völdum slyssins, mismunurinn stafar þó oft af því að verið er að vísa til misstórra hópa og mismunandi forsenda.  

Sem dæmi um mismun á áætluðum fjölda dauðsfalla má nefna:

a)     Af þeim 600 000 manns sem urðu fyrir mestri geislun: 4 þúsund

b)     Af þeim 5 milljónum sem búa á svæðum sem urðu fyrir geislavirku úrfelli: 5 þúsund til viðbótar

c)     Af 570 milljónum íbúa Evrópu: Um 30 – 60 þúsund

Það er þó aðeins í hópi (a) sem áhætta einstaklinga hefur aukist með marktækum hætti (t.d. þannig að hún gæti verið greinanleg með tölfræði).  Deilt er um hvort taka skuli með hópa (b) og (c) þar sem áhættuaukning einstaklinga er orðin hverfandi lítil.  Þessi misklíð hefur skapað rugling og rýrt traust á mati á afleiðingum slyssins. 

Víða hefur verið sterk andstaða gegn nýtingu kjarnorku og ýmis stjórnvöld hafa hætt við byggingu nýrra kjarnorkuvera og ákveðið að hætta rekstri sumra eða allra núverandi vera.  Óæskileg áhrif af völdum annarra orkugjafa, t.d. áhrif hugsanlegra loftslagsbreytinga, hefur gert það að verkum að margar þjóðir eru nú að endurskoða orkustefnu sína og hvaða orkugjafa skuli nýta.  Það eru því líkur á því að nýting kjarnorku muni aukast á ný og umræða um hana muni aukast.

Nánari lýsingu má finna í samantektinni Kjarnorkuslysið í Tjernobyl, 1986 – orsakir og afleiðingar