Geislunarslys eru metin með svokölluðum INES kvarða (the International Nuclear and Radiological Event Scale). Kvarðanum er ætlað að hjálpa til við að skýra fyrir almenningi hversu alvarleg geislunar- og kjarnorkuslys kunna að vera og að auðvelda samanburð. Kvarðanum er skipt í 7 stig.  Þrjú lægstu eru atvik, þau fjögur efstu teljast slys.  Atburðir sem skipta engu máli vegna öryggis teljast frávik (deviation) og lenda í þrepi 0, neðan kvarða.  Stigin eru:

  1. Smávægilegt atvik (Anomaly)
  2. Atvik (Incident)
  3. Alvarlegt atvik (Serious incident)
  4. Slys með staðbundnar afleiðingar (Accident with local consequences)
  5. Slys með sem hefur afleiðingar víða (Accident with wider consequences)
  6. Alvarlegt slys (Serious accident)
  7. Stórslys (Major accident)

Mat á slysi er unnið út frá leiðbeiningarriti frá IAEA (INES User‘s Manual, 2008 Edition).  Ýmsir þættir geta haft áhrif á flokkunina, t.d. magn efna sem er álitið að hafi sloppið til umhverfis, minnkað öryggi sem skapar hættu, heilsutjón o.fl.  Endurmat Japana á slysinu í Fukushima byggist á nýju mati þeirra á hversu mikið af geislavirkum efnum hafi sloppið til umhverfis.  Einnig miða þeir nú matið við alla kjarnakljúfa versins í heild, í stað þess að meta hvern fyrir sig.  Samkvæmt viðmiðum leiðbeiningaritsins telst slysið í þrepi 7 í ljósi þess hversu mikið er gert ráð fyrir að hafi sloppið út af efnum.  Sú flokkun byggir hins vegar ekki á heilsutjóni, enda fór mikið af efnunum sem bárust frá verinu á haf út og varasamasta efnið (joð-131) rýrnar tiltölulega ört (um helming á 8 dögum, niður í 1/1000 á 80 dögum).

Slysið í kjarnorkuverinu í Tsjernobyl, árið 1986, er alvarlegasta slys sem hefur orðið í kjarnorkuveri.  Það telst einnig í þrepi 7 á INES kvarða.  Þótt bæði slysin séu nú flokkuð í þrepi 7, þá þýðir það ekki þar með að þau séu sambærileg.  Atburðarás og fyrirsjáanlegar heilsufarslegar afleiðingar (miðað við núverandi ástand) eru mjög mismunandi.  Í Tsjernobyl verinu varð sprenging og eldsvoði sem dreifðu miklu magni efna hátt upp og þannig að þau bárust víða.  Takmörkuð viðbrögð yfirvalda á svæðinu gerðu afleiðingar verri en þær hefðu þurft að vera.

Það var strax fyrirsjáanlegt að atburðarásin í Fukushima yrði mun hægari en í Tsjernobyl, þar sem verið í Fukushima er allt annarrar gerðar.  Undir venjulegum kringumstæðum hefði verið tiltölulega auðvelt að ráða við bilun kælingar í kjarnakljúfunum en bregðast þarf við henni innan nokkurra klukkustunda.  Í verinu voru varadælur til staðar, ennfremur mátti nota dælur slökkvibíla og aðrar færanlegar dælur ef væradælurnar brygðust.  Flóðbylgjan eyðilagði hins vegar allt á stóru svæði umhverfis verið.  Baráttan við að koma fullnægjandi kælingu á aftur hefur því verið langvinn og geislavirk efni hafa losnað til umhverfis.  Starfinu miðar sem betur fer í rétta átt, kæling eykst, varmamyndun í kjarnakljúfum fer jafnt og þétt minnkandi og magn geislavirkra efna sömuleiðis.

Þótt japönsk stjórnvöld hafi nú flokkað slysið í Fukushima í þrep 7, þá er samanburður við slysið í Tsjernobyl ekki viðeigandi, enda byggir flokkunin eingöngu á mati á hversu mikið af efnum hafi sloppið til umhverfis, margir telja það mun minna.  Í tilkynningu japanskra stjórnvalda kemur einnig fram að þetta mat sé til bráðabirgða.  Mikið af efnunum hafi farið á haf út, japönsk stjórnvöld hafi brugðist skjótt við, með brottflutningi, stöðvun dreifingar fæðu sem gat verið geislamenguð og með almennri ráðgjöf.  Heilsufarsleg áhrif slyssins séu því mun minni.

Vonandi tekst að ná góðum tökum á kælingu í kjarnorkuverinu í Fukushima og að koma í veg fyrir frekari losun geislavirkra efna til umhverfis.   Mat á hversu mikið magn efna hefur sloppið til umhverfis mun skýrast á næstu mánuðum sem og hverjar afleiðingar slyssins eru fyrir heilsufar og umhverfi.  Þetta er eitt helsta viðfangsefni margra vísindaráðstefna næstu mánuði.  Það er þó ljóst að miðað við núverandi ástand er heilsufarsleg ógn bundin við takmarkað svæði.

Geislavarnir ríkisins munu halda áfram að fylgjast með og meta þróun ástandsins í Fukushima.

Sigurður Emil Pálsson, sep@gr.is

 

 

Stoðefni: