Nýjar tölur frá árinu 2008 sýna að stöðugt dregur úr fjölda rannsókna þar sem notuð eru  geislavirk efni.  Að nokkru leyti er þetta vegna þess að rannsóknir í segulómtækjum og sneiðmyndatækjum hafa leyst þær af hólmi. Meðfylgjandi mynd sýnir  hvernig þróunin hefur verið  í fjölda árlegra rannsókna á Íslandi.

FjoldiRannsokna

 

Erlendis er þessi þróun ekki jafn greinileg sem stafar af tvennu. Annarsvegar er aðgengi íslenskra lækna að segulóm- og sneiðmyndatækjum mjög gott og hinsvegar hefur hér orðið bið á því að notkun  svokallaðra  PET- tækja hefjist.  PET-tæki  nota mjög skammlíf geislavirk efni, aðallega til að meta hugsanlega útbreiðslu meinvarpa.  Þessi efni þarf að framleiða á staðnum en ekki er búnaður til þess í landinu.

Í lögum um geislavarnir er ákvæði um að Geislavarnir ríkisins fylgist með geislaálagi þjóðarinnar vegna notkunar jónandi geislunar. Í því skyni safnar stofnunin með vissu árabili upplýsingum um fjölda rannsókna á sjúkrahúsum landsins.

Ekkert geislaálag fylgir notkun segulómtækja en mikil aukning í notkun sneiðmyndatækjum hefur aukið geislaálag Íslendinga og annarra þjóða vegna læknisfræðilegrar geislunar, sbr. nýlega frétt  frá 5. maí 2009 um það efni.

Minni notkun geislavirka efna endurspeglast einnig í öðrum greinum.  Það virðist almenn þróun að nota frekar aðferðir sem ekki byggja á geislavirkum efnum, enda hefur tækni í öðrum greinum fleygt fram. Í iðnaði er áberandi hversu tækjum sem nota geislavirk efni hefur fækkað mikið á meðan flóknum tölvustýrðum gæðaröntgentækjum hefur fjölgað.

 

ÞS