Öflugir leysar og IPL tæki eru notuð í auknum mæli á snyrtistofum í fegrunarskyni. Vegna þess að tækin geta valdið skaða á augum og húð krefst notkun þeirra sérstakrar þekkingar og þjálfunar þeirra sem þau nota.

Ný reglugerð um þessi tæki tók gildi árið 2015 og í framhaldi af því var ákveðið að kanna umfang notkunar þeirra á snyrtistofum.  Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna veitti upplýsingar um skráðar snyrtistofur. Þeim hefur verið sent bréf þar sem vakin er athygli á reglugerðinni og spurt um notkun öflugra leysa og IPL tækja. Svörun hefur verið nokkuð góð og er gert ráð fyrir að kynna niðurstöðurnar síðar í sumar.

Reglugerðina, nr . 1339/2015, um innflutning og notkun öflugra leysa, leysibenda og IPL tækja, má finna hér:

http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/velferdarraduneyti/nr/1339-2015

Þar segir m.a. í 5. gr.

Notkun leysa í flokki 3B og flokki 4 sem og IPL-tækja í fegrunarskyni skal vera á ábyrgð læknis.

Sé læknir ekki í starfi á notkunarstað getur hann beitt fjarlækningum við þann aðila er um getur í 4. mgr. eða gert skriflegt samkomulag við lækni í sama byggðarlagi um aðkomu hans að læknis­fræði­legum þáttum notkunarinnar og sérstaklega ef upp koma ófyrirséð atvik eða vandamál tengd notkuninni.

Þeir sem bera ábyrgð á notkun leysa í flokki 3B og 4 sem og IPL-tækja skulu sjá til þess að þeir sem þá nota hafi fengið fullnægjandi þjálfun í notkun þeirra annaðhvort á grundvelli viðurkenndrar menntunar eða með einstaklingsmiðaðri fræðslu og þjálfun þannig að þeir þekki vel til notkunar geislatækjanna og þeirrar hættu sem notkun þeirra getur fylgt.

og í 6. gr.

Aðilar sem hyggjast hefja læknisfræðilega notkun eða notkun í fegrunarskyni á leysum í flokki 3B, flokki 4 og IPL-tækja skulu tilkynna það Geislavörnum ríkisins áður en notkun hefst og greina frá nafni, menntun og stöðu þess sem ábyrgð ber á notkuninni, sbr. 4. gr.