Nú stendur yfir 7. rýnifundur alþjóðasáttmála um kjarnöryggi (Convention on Nuclear Safety, CNS) í höfuðstöðvum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA). Sáttmálinn tók gildi 24. október 1996 en Ísland varð fullgildur aðili að honum 2. september 2008. Frá gildistöku sáttmálans hafa verið haldnir reglulegir rýnifundir, síðast árið 2014, en einnig sérstakir fundir, m.a. vegna slyssins í Fukushima. Á þeim fundum er m.a. farið í saumana á því hvernig aðildarríki samningsins, sem nú eru 80 talsins, uppfylla skilyrði hans.

Fulltrúi Geislavarna ríkisins í sendinefnd Íslands á fundinum flutti í gær kynningu á stöðu Íslands í þessum efnum þar sem m.a. er tekið tillit til viðbragða annarra ríkja við skýrslu þeirri sem Ísland lagði fram sl. haust.

Markmið alþjóðasáttmálans um kjarnöryggi er að stuðla að auknu öryggi við notkun kjarnorku um allan heim og draga þannig úr líkum á slysum. Sáttmálinn leggur einnig áherslu á viðbúnað, öryggismenningu og viðbrögð við slysum og óhöppum. Gerðar eru bindandi kröfur til þeirra ríkja sem hann staðfesta og eru haldnir rýnifundir á þriggja ára fresti þar sem fjallað er um hvort framkvæmd sáttmálans sé eins og best verður á kosið. Á rýnifundum gera aðildarríkin grein fyrir því með hvaða hætti þau uppfylla kröfur sem felast í sáttmálanum og svara spurningum annarra aðildarríkja þar um. Leitast er við að koma auga á aðsteðjandi vanda og ný úrlausnarefni sem glíma þarf við. Þá styður ferlið við rýnina upplýsingamiðlun og gagnsæi. Þau aðildarríki sáttmálans sem ekki hafa kjarnorkuver eða annan kjarniðnað eiga að gera grein fyrir viðbúnaði sínum vegna kjarnorkuslysa sem verða í öðrum löndum, en um leið fela þessar skýrslur í sér lýsingu á m.a. regluverki sem tengist geislavörnum og viðbúnaði almennt.

Skýrslur og kynningar Íslands vegna sáttmálans eru birtar á vef Geislavarna ríkisins. Hér má lesa opnunarerindi framkvæmdastjóra IAEA, Yukiya Amano á yfirstandandi fundi ásamt upphafsorðum Ramzi Jammal, forseta fundarins.

Yukio Amano flytur opnunarerindi sitt

Yukiya Amano flytur opnunarerindi sitt (Mynd: D. Calma/IAEA)