Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) styður viðleitni aðildarríkjanna til að takmarka notkun á ljósabekkjum í þeim tilgangi að draga úr hættu á skaðlegum áhrifum svo sem vegna myndunar húðkrabbameina.

Í nýrri skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest.

Krabbameinsrannsóknastofnun WHO í Lyon (IARC) flokkaði útfjólubláa geislun frá ljósabekkjum sem krabbameinsvaldandi árið 2009. Síðan þá hafa yfir 40 aðildarríki WHO, þar á meðal Ísland, innleitt takmarkanir á notkun þeirra, en betur má ef duga skal.

Í skýrslunni er fjallað um ýmsar aðgerðir sem aðildarríkin hafa gripið til í þeim tilgangi að takmarka notkun ljósabekkja. Þar má nefna innleiðingu aldursmarka og ýmsar kröfur sem gerðar eru til þeirra sem reka sólbaðsstofur.  Áhersla er lögð á fræðslu og margvíslega miðlun upplýsinga um skaðleg áhrif af notkun ljósabekkja í fegrunarskyni.

Sérstök áhætta á myndun sortuæxla, sem er hættulegasta tegund húðkrabbameina, tengist notkun ljósabekkja, óháð húðtýpu. Hættan á myndun sortuæxla er meiri fyrir ungmenni sem fer í ljósabekk í fyrsta sinn en eldra fólk og eykst með aukinni notkun ljósabekkja.

Rannsóknir sýna að þeir sem hafa notað ljósabekk að minnsta kosti einu sinni eru í 20% meiri hættu að fá sortuæxli en þeir sem aldrei hafa gert það. Þeir sem fara í ljósabekk fyrir 35 ára aldur eru í 59% meiri hættu að fá sortuæxli.

Í árlegum könnunum á notkun ljósabekkja sem framkvæmdaru er á vegum Geislavarna ríkisins, Krabbameinsfélagsins og Embættis Landlæknis kemur fram að notkun þeirra hér á landi hefur minnkað mjög á undanförnum árum.