Geislavarnir ríkisins stóðu nýlega fyrir talningu á ljósabekkjum sem almenningur er seldur aðgangur að á landsvísu. Slíkar talningar hafa Geislavarnir gert á þriggja ára fresti frá árinu 2005 og veita þær innsýn í ljósabekkjanotkun Íslendinga.

Fjöldi ljósabekkja 2005-2017
2005 2008 2011 2014 2017
Höfuðborgarsvæðið 144 98 76 61 58
Landsbyggðin 133 98 92 60 32
Landið allt 277 196 168 121 90

 

Á síðustu þremur árum hefur ljósabekkjum fækkað hlutfallslega meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og eru þeir í fyrsta sinn síðan þessar talningar hófust færri þar ef miðað er við íbúafjölda.

Fjöldi ljósabekkja á 1000 íbúa  
  2005 2008 2011 2014 2017
Höfuðborgarsvæðið 0,8 0,5 0,4 0,3 0,3
Landsbyggðin 1,1 0,8 0,7 0,5 0,2
Landið allt 0,9 0,6 0,5 0,4 0,3

 

Tölur um bekki á landsbyggðinni eru ekki eins áreiðanlegar og á höfuðborgarsvæðinu.  Á höfuðborgarsvæðinu eru fáir staðir með marga bekki en úti á landi eru margir staðir með einn bekk, oft tengdir við íþróttastarfsemi. Á síðustu tólf árum hefur heildarfjöldi ljósabekkja minnkað um u.þ.b. tvo þriðju.

Til höfuðborgarsvæðis eru hér talin sveitarfélögin Reykjavík, Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur og Seltjarnarnes.

Í nýrri skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest.

Í skýrslunni er fjallað um ýmsar aðgerðir sem aðildarríkin hafa gripið til í þeim tilgangi að takmarka notkun ljósabekkja. Þar má nefna innleiðingu aldursmarka og ýmsar kröfur sem gerðar eru til þeirra sem reka sólbaðsstofur.  Áhersla er lögð á fræðslu og margvíslega miðlun upplýsinga um skaðleg áhrif af notkun ljósabekkja í fegrunarskyni.