Á landinu öllu eru nú 196 ljósabekkir en þeir voru 277 í könnun árið 2005. Langflestir bekkir á höfuðborgarsvæðinu (um 90%) eru hjá sólbaðsstofum en úti á landi eru bekkirnir oftast á stöðum sem selja einnig aðra þjónustu en sólböð, til dæmis eru þeir algengir í heilsuræktarstöðvum og sundlaugum. Miðað við íbúafjölda eru ljósabekkir fleiri á landsbyggðinni en í Reykjavík en á móti kemur að gera má ráð fyrir að sólbaðsstofur nýti sína bekki betur.

Á landinu öllu eru nú 0,6 bekkir á þúsund íbúa og eru rúmlega 60% þeirra hjá sólbaðsstofum. Árið 2005 voru 0,9 bekkir á þúsund íbúa og svipað hlutfall hjá sólbaðstofum.

Til samanburðar taldi sænska geislavarnastofnunin 300 bekki í Gautaborg árið 2001 en þar búa um 470 þúsund íbúar sem gera um 0,6 bekki á þúsund íbúa, sem er svipað hlutfall og nú er á Íslandi. Aðeins 33% þessara bekkja voru hjá sólbaðsstofum.

Samstarfshópur um varnir gegn útfjólublárri geislun var stofnaður í byrjun árs 2004. Núna eru aðilar að honum Geislavarnir ríkisins, Landlæknisembættið, Félag ísleneskra húðlækna, Lýðheilsustöð og Krabbameinsfélagið. Hópurinn hefur á hverju ári staðið fyrir átakinu Hættan er ljós sem beint er gegn ljósabekkjanotkun unglinga og benda kannanir til að átakið hafi skilað góðum árangri.

Krabbameinsfélagið hefur fyrir hönd hópsins hvatt sveitarfélög til að fjarlægja ljósabekki úr opinberum íþróttamannvirkjum. Á höfuðborgarsvæðinu hafa sveitarfélög fjarlægt bekki úr sundlaugum enda má segja að nægt framboð einkaaðila sé á slíkri þjónustu. Sums staðar eru bekkirnir í rekstri einkaaðila þótt þeir séu í opinberum byggingum og rekstur þeirra ekki á ábyrgð sveitarfélaga.

Geislavarnir ríkisins og sams konar stofnanir á Norðurlöndum birtu árið 2005 sameiginlega yfirlýsingu þar sem mælt var gegn notkun ljósabekkja, sérstaklega meðal ungs fólks.

Tilvísanir:
Samnorrænar ráðleggingar um ljósabekki frá 2005. Common public health advice
Sænsk könnun á fjölda ljósabekkja í Gautaborg. SSI-report 2003:03