Geislavarnir ríkisins hafa nýlokið talningu á fjölda ljósabekkja sem almenningi er seldur aðgangur að. Lítilleg aukning hefur orðið á heildarfjölda ljósabekkja frá síðustu talningu sem fór fram árið 2017. Aukningin hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu en fjöldi ljósabekkja á landsbyggðinni hefur hins vegar minnkað lítillega, eins og sjá má á grafinu hér að neðan.

Geislavarnir hafa talið ljósabekki á þriggja ára fresti frá árinu 2005 en þetta er í fyrsta sinn sem bekkjum fjölgar milli talninga.

Samtals selja nú 23 staðir almenningi aðgang að ljósabekkjum, þar af 9 á höfuðborgarsvæðinu og 14 á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu eru þannig fáir staðir með marga ljósabekki en á landsbyggðinni margir staðir með einn eða fáa bekki. Til höfuðborgarsvæðisins teljast hér sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær, Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.

Ef skoðaður er fjöldi ljósabekkja með tilliti til íbúafjölda þá helst hann óbreyttur frá síðustu talningu sbr. töfluna hér að neðan. Hún sýnir þróun fjölda ljósabekkja á 1000 íbúa frá árinu 2005.

Ofangreindar niðurstöður eru ekki í fullu samræmi við það sem búast mætti við ef skoðaðar eru niðurstöður úr nýlegri könnun á ljósabekkjanotkun Íslendinga, en hún sýndi minnkandi notkun á ljósabekkjum. Niðurstöðurnar sýndu að hlutfall fullorðinna sem höfðu notað ljósabekki einu sinni eða oftar á undangengnum 12 mánuðum var komið niður í um 6%, úr 11% árið 2019. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra frá því að kannanir hófust árið 2004.

Geislavarnir ráða fólki eindregið frá því að nota ljósabekki enda fylgir notkun þeirra aukin hætta á húðkrabbameini. Norrænu geislavarnastofnanirnar hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þess efnis en fjallað er nánar um norrænu yfirlýsinguna hér.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem kom út 2017 segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest. 18 ára aldurstakmark á notkun ljósabekkja tók gildi á Íslandi í janúar 2011.