Geislavarnir ríkisins hafa tekið upp samstarf við SSI, sænsku geislavarnirnar, vegna kvörðunar mælibúnaðar í geislavörnum. Starfsmaður GR tók þátt í námskeiði um geislamælifræði hjá SSI dagana 13-17. júní s.l. um leið og framkvæmd var kvörðun á nokkrum mælum Geislavarna.

 

Á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi eru reknar kvörðunarstofur hjá geislavarnastofnunum. Hlutverk þeirra er að kvarða búnað sem mælir geislaskammta. Á Íslandi hafa mælar verið sendir út til annarra landa til kvörðunar. Ekki vinna nema um 20 manns hjá norrænum kvörðunarstofum og er ljóst að þekking á þessu svið er ekki mjög almenn. Því er samstarf í menntunarmálum á þessu sviði mikilvægt. Ekki stendur til að hefja rekstur á sambærilegri kvörðunarstofu á Íslandi og eru á hinum Norðurlöndunum, en þekking á þessu sviði er engu að síður nauðsynleg. Starfsemi í smáum stíl sem hentaði íslenskum aðstæðum er til athugunar hjá stofnuninni.

 

Til stendur að halda námskeið á tveggja ára fresti fyrir starfsmenn kvörðunarstofa á norðurlöndum og þótti fyrsta námskeiðið í Svíþjóð takast vel.

 

Sjá eldri frétt um mælifræði  frá 1.11.2005