Geislavarnir ríkisins gerðu 51 mælingu á rafsegulsviði frá farsímasendum á 16 stöðum sumarið 2018. Verkefnið var unnið í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun.

Leitast var við að mæla á stöðum þar sem búist var við að styrkur rafsegulsviðsins frá farsímasendum væri sem mestur. Mæld gildi voru borin saman við viðmiðunarmörk fyrir almenning sem sett eru af Alþjóða geislavarnaráðinu fyrir ójónandi geislun (ICNIRP, 1998) en viðmiðunarmörkin eru gefin út á grundvelli mats á niðurstöðum fyrirliggjandi vísindarannsókna á hugsanlegum skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs.

Niðurstöður mælinga Geislavarna sýndu að styrkur rafsegulsviðsins frá farsímasendum var í öllum tilvikum langt innan viðmiðunarmarka ICNIRP fyrir almenning. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum telja Geislavarnir ríkisins að ekki sé, að svo stöddu, tilefni til frekari aðgerða eða mælinga á styrk rafsegulsviðs frá farsímasendum á Íslandi.