Með vorinu hækkar sól á lofti og eykst þá styrkur útfjólublárrar geislunar frá sólu. Ætla má að óvenju margir séu útivið þessa dagana, ekki síst þeir fjölmörgu sem ganga að gosstöðvum á Reykjanesi. Rétt er að minna fólk á að varast að hafa húðina óvarða úti í sólinni lengur en í skamma stund. Við minnum sérstaklega á börnin í þessu sambandi en sólbruni veldur húðskemmdum sem geta leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni, og yngri börn hafa varla vit á að verja sig sjálf.

Á vef Geislavarna ríkisins má fylgjast með því hvernig svokallaður UV-stuðull fer nú hækkandi með hverjum degi hér á landi. Stuðullinn segir til um styrk útfjólublárrar geislunar. Myndin að neðan er skjáskot af vefsíðu Geislavarna með sívöktun á útfjólublárri geislun sólar í Reykjavík og á Egilsstöðum.

Tölurnar að ofan eru mælikvarði á styrk útfjólublárrar geislunar miðað við heiðskírar aðstæður. Þær eru byggðar á reikningum og gervihnattamælingum (EOS-Aura) finnsku veðurstofunnar á þykkt ósónlagsins. Dagsetningin sýnir hvenær síðustu tölur voru reiknaðar. Heiltölugildið af ofantöldu kallast UV-stuðull. Sé smellt á tölurnar (á http://uv.gr.is/) fæst graf sem sýnir gildi þrjá mánuði aftur í tímann.

Sjá má spá um UV-stuðla í Evrópu á vef Finnsku veðurstofunnar. Hægt er að sjá spá fyrir daginn í dag og tvo næstu daga í Reykjavík.

Sé UV-stuðullinn 3 eða hærri þá er þörf á að verja sig fyrir geislum sólar, t.d. með flíkum, sitja í skugga, nota sólarvörn og takmarka þann tíma sem fólk er óvarið í sól. Við minnum alveg sérstaklega á börnin í þessu sambandi, en einnig er hollt að muna að styrkur geislunar getur verið mikill þótt svalt sé í veðri. Sé stuðullinn 2 eða hærri þá getur verið þörf á sólarvörn ef verið er lengi úti í sólinni eða ef húð er viðkvæm.

Að lokum bendum við á eftirfarandi fræðsluefni: