Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins er stjórnarformaður NKS og er hann fyrsti Íslendingurinn sem gegnir því hlutverki. NKS er samstarfsvettvangur norrænna geislavarna- og kjarnorkueftirlitsstofnana um rannsóknir sem varða öryggi í kjarnorkuiðnaði, viðbúnað og geislavistfræði. Geislavarnir ríkisins taka virkan þátt í verkefnum styrktum af NKS.

Á fundinum var m.a. úthlutað rúmlega 125 milljónum króna í rannsóknastyrki, að undangengnu mati á umsóknum. Verkefni tengd öryggi í kjarnorkuiðnaði fengu um 65 milljónir króna en verkefni tengd geislunarviðbúnaði og geislavistfræði fengu um 60 milljónir króna.

Geislavarnir taka þátt í 6 verkefnum af 7 sem styrk hlutu að þessu sinni, stjórna einu þeirra og skipuleggja og hafa umsjón með öðru. Rannsóknastyrkirnir til Geislavarna nema samtals um 7 milljónum króna. Um er að ræða verkefni er tengjast geislunarviðbúnaði og rannsóknum í geislavistfræði.

Verkefnið sem Geislavarnir stjórna snýst um samnorrænar æfingar um viðbúnað við geislavá, en í því taka einnig þátt aðrar geislavarnastofnanir á Norðurlöndum. Verkefnið sem Geislavarnir skipuleggja og hafa umsjón með, snýst um að efla þekkingu og hæfni til greiningar á geislavirkum efnum.

Fjárhagsrammi NKS samstarfsins á árinu 2011 verður um 200 milljónir króna. Þar af nemur framlag Geislavarna ríkisins um 3.5 milljónum króna en greiðslur NKS til Geislavarna vegna rannsóknastyrkja og stjórnarformennsku á árinu 2011 nema um 15,5 milljónum króna.

Nánari upplýsingar um starfsemi NKS má finna á heimasíðunni: http://www.nks.org/ eða hjá Sigurði M. Magnússyni, sími 440 8200

18. janúar 2011  SMM